Kveðja frá Uglu

7 des, 2010


Mig langaði nú bara að láta vita af mér, en ég ættleiddi unga konu sem kom til ykkar í júli 2008 að leita sér að kisu.


Um leið og hún steig inn í herbergið vissi ég að þarna væri góð manneskja á ferð og linnti ég ekki látum fyrr en hún var komin að búrinu mínu og gaf henni stóóórt knús þegar búrið var opnað. Ég var sko búin að ákveða að ég vildi eiga heima hjá þessari, hún fékk engu um það ráðið! 😉


Ég var voða lítil og mjóslegin þá (eins og sést á myndinni efst í vinstra horninu) en hef alltaf verið mjög ákveðin ung læða og um leið og ég kom heim í fyrsta sinn var ég enga stund að aðlagast þessum nýju heimkynnum og skoðaði hvern krók og kima af mikilli forvitni. Ég er heldur betur orðin hraust og pattarleg í dag og sjarmera alla gesti upp úr skóm og sokkum þegar einhver kíkir í heimsókn til okkar.


Ég er voða sérstök á litinn, bæði brúnflekkótt og röndótt og með RISAstór falleg augu. Þegar ég sit athugul með mín stóru augu og sperri eyrun lít ég út alveg eins og ugla, svo konan skírði mig Uglu.


Þar sem við búum á þriðju hæð í blokk fer ég ekkert út, en kemst alltaf út á svalir og finnst voða gaman að skoða heiminn þaðan. Það er reyndar bannað dýrahald í blokkinni, en allir nágrannarnir vita af mér og eru búnir að hitta mig og hafa ekkert á móti því að ég sé hér. Konan sem ættleiddi mig er sjálf með mikið kattarofnæmi og við erum í teppalagðri íbúð svo það mætti ætla að þetta gengi enganveginn upp, en hún vissi að hún myndi venjast mér fljótlega og er hún dugleg að knúsast með mig og leika við mig og leyfir mér að sofa hjá sér upp í rúminu á nóttunni sem mér finnst best í heiminum!


Konan mín er líka mikill ljósmyndari og finnst mér voða gaman að vera ljósmyndafyrirsæta. Uppáhalds áhugamál mín eru að veiða laufblöð úti á svölum í rokinu, njósna um nágrannana af svölunum og troða mér í plastpoka og pappakassa.


Núna er besti tími ársins að ganga í garð þegar konan mín sækir tré niður í geymslu og fer að skreyta. Hugulsamt af henni að hafa svona stórt klóruprik og dót handa mér, því ég veit ekkert skemmtilegra en að leika mér í þessu tré. 🙂


Ég mala mjög mikið og hátt og get haldið uppi heilu samræðunum við konuna mína með ákveðna mjálminu mínu, þessu heimili er sko stjórnað með harðri loppu. 😉


Ég er samt voða hvumpin og konan mín er viss um að það hafi eitthvað með að gera þegar ég týndist í Fellahverfinu á sínum tíma, svakalega var ég heppin að ég komst þaðan í Kattholt til ykkar þar sem ég gat valið mér nýjan eiganda og nýtt heimili.  Takk fyrir mig þið góða fólk!


Með kærri kveðju og miklu mali
Ugla og Brimrún