Sæl verið þið.


Ég hef nú lengi ætlað mér að senda ykkur línu og þakka fyrir hjálpina. Ef hugsanir nú bara kæmust til skila….:)


 


Ég leitaði til ykkar í sumar þegar ég kom úr sumarfríi og hún litla, fallega Skrýtna Kisa hafði flutt að heiman og gotið út í hrauni.


 


Ég fékk afar góð ráð frá ykkur, m.a. að fara með bælið hennar þangað. Kettlingarnir voru í það djúpri gjótu að ég náði ekki til þeirra og engin leið var að losa hraunhellurnar frá án þess að eiga það á hættu að koma af stað hruni.


 


Nokkrir dagar fóru í það að hanga fyrir utan gjótuna með góða bók (karítas – fallegasta bók í heiminum), Skrýtna Kisa svona alsæl að hafa mig þarna, malaði og malaði en aldrei kom hún upp með kettlingana.


 


Einn morguninn kom hún svo heim og grét mikið.


 


Ég fór út með henni og hafði hún þá dröslast heim með einn kettling sem var dáinn. Hafði ekki órhætis minkurinn komist í börnin hennar.


 


Elsku Skrýtna Kisa fór með mig út í hraun og kom með börnin sín heim, 4 gullfallega kettlinga sem minkurinn hafði því miður náð að deyða, alla sem einn.


 


Kvöldið var skrítið og átti kisa mjög bágt. Spenarnir þrútnir og hún aum.


 


Ákvað ég þá að reyna að finna fyrir hana önnur börn. Töldu flestir mig vera algjörlega gengna af göflunum en ég hringdi í nærliggjandi sveitir og óskaði eftir kisubörnum. Endaði ég á að auglýsa á Barnalandi hvort að einhver væri með kettlinga á vesturlandi. Þarna er klukkan að verða miðnætti á sunnudegi um verslunarmannahelgi.


 


Innan við 10 mínútur liðu þegar kona úr næstu sveit svarar og segist vera með 6 fjósakettlinga og mér sé velkomið að koma og fá lánuð börn og prófa.


 


Nú veit ég ekki hvort að það urri í ykkur við það að heyra þetta en ég var alveg ráðalaus og kisa mín átti svo bágt.


 


Í skjóli myrkurs keyrði ég og sótti 2 lítil kisubörn. Ég hafði hugsað mér að nudda þeim upp við litlu líkin, reyna að fá hennar lykt á þetta en svo reyndist ekki þörf þar sem kisa gjörsamlega missti sig af ánægju, beint í bælið sitt og malaði þessi ósköp og litlu börnin beint á spena.


 


Þessir 2 kettlingar þeir Jón Ingi og KR brögguðust vel og er Jón Ingi nú aðal músa hetjan á Varmalandi og KR veiðir laufblöð hér á Bifröst og kemur sér inn í heimsókn allsstaðar.


 


Kisa og ég erum bestu vinkonur, betri nú en áður ef eitthvað er.


 


Sendi ykkur mynd af kisu og fósturbörnunum hennar.


 


Takk fyrir hjálpina aftur og fyrirgefið að ég hafði ekki samband fyrr líkt og ég lofaði. Ég vona að ykkur blöskri ekki vinnubrögðin en svona var þetta nú.


 


Bestu kveðjur frá Bifröst


 


Kristín