Sælar Kattholtskonur og kisur.


Rak augun í bréfið frá henni Eygló og er svo hjartanlega sammála henni.


 


Hvar er ábyrgðin fyrir dýrunum okkar? Skil ekki þessa grimmd sem alltof margar manneskjur búa yfir.


 


Sem betur fer eru þó enn til sannir dýravinir og það gleður mann alltaf að vita af svoleiðis fólki.


 


Í janúar 2004 kom högni til okkar fjölskyldunnar (búum á Akureyri). Í fyrstu var greyið hálf hræddur við okkur en við gáfum honum mat því hann virtist svangur.


 


Hann var ómerktur og hafði það sérkenni að skotið hans var í hálfhring. Eftir nokkur skipti fór kisi að sýna sitt rétta eðli og þvílíkur blíðlyndiskisi þar á ferð. Mánuðurnir liðu og alltaf hélt hann áfram að koma annars lagið.


 


Nú 4 og hálfu ári seinna kemur hann stundum ennþá til okkar til að fá að borða og dettur mér ekki annað í hug en að gefa honum. Þetta er greinilega fyrrverandi heimilisköttur því hann er blíður og góður strákur.


 


Ég prófaði að auglýsa eftir eigendum hans en enginn gaf sig fram. Mér þykir hræðilegt að hugsa til þess að þessu skinni hafi kannski verið fleygt út á Guð og gaddinn.


 


Ég vona að ég hafi lagt mitt að mörkum til að gera líf hans betra en það ella hefði orðið. Ég sendi með mynd af kisanum sem við fjölskyldan köllum Skotta.


Kv. Ragnheiður