|
Bandarískir læknar klóra sér nú í kollinum yfir meintum hæfileikum kattar, sem virðist skynja það þegar íbúar á elliheimili eru við það að fara kveðja þennan heim.
Kötturinn Óskar hefur lagt það í vana að hnipra sig saman við hlið sjúklinga, sem liggja á dvalarheimili fyrir aldraða í Providence á Rhode Island, aðeins nokkrum klukkustundum áður en fólkið deyr.
Kötturinn, sem er tveggja ára gamall, hefur 25 sinnum reynst sannspár. Af þeim sökum eru starfsmenn elliheimilisins nú farnir að gera fjölskyldum þeirra einstaklinga sem kötturinn fer að kúra hjá viðvart svo fjölskyldan geti varið síðustu klukkustundunum saman.
Fjallað er um þetta mál í nýjasta hefti vísindaritsins New England Journal of Medicine.
Læknar segja að ef Óskar leggist við hliðina á sjúklingi þá geti það þýtt að viðkomandi manneskja eigi aðeins um tvo tíma eftir ólifaða.
Hann hefur sjaldan haft rangt fyrir sér. Hann virðist skilja það þegar sjúklingar eru við það að fara deyja, segir David Rosa, sem starfar sem prófessor hjá Brown háskólanum, en hann vann að rannsókninni.
Mbl.is greindi frá
Heimild: BBC