Kattholt verður áfram til staðar: Seint fyllt upp í þetta stóra skarð

28 Feb, 2011


Elín Kristjánsdóttir, forstöðukona Kattholts, segir fjölda katta þurfa á athvarfinu að halda.


„Það er mikið af köttum sem þurfa á okkur að halda og við munum ekki bregðast þeim.


Kattholt mun starfa áfram í óbreyttri mynd,“ segir Elín Kristjánsdóttir, forstöðumaður Kattholts, sem segir stórt skarð hafa myndast í hóp kattavina við fráfall Sigríðar Heiðberg, fyrrverandi forstöðukonu Kattholts og formann Kattavinafélags Íslands. Sigríður lést þriðjudaginn 22. febrúar síðastliðinn.


Eftir fráfall Sigríðar hafa margir kattavinir óttast um stöðu Kattholts og verið uggandi um framtíð þess góða starfs sem þar hefur unnist á undan förnum árum. Fyrir utan að hýsa heimilislausa ketti hefur markmið Kattholts verið að upplýsa fólk um mikilvægi þess að merkja og gelda ketti sína og veita fróðleik um kattarhald. Þar er einnig kattahótel sem hefur notið mikilla vinsælda meðal kattareigenda því sinna þarf köttunum þegar eigendur fara í frí.


Elín Kristjánsdóttir hefur starfað í Kattholti í 11 ár en hún tók við forstöðu Kattholts í veikindum Sigríðar og mun halda áfram því óeigingjarna starfi sem Sigríður vann þar í gegnum árin. „Það verður seint fyllt upp í þetta skóra skarð en maður reynir sitt besta og við höfum ástríðu hennar á Kattholti að leiðarljósi í okkar starfi,“ segir Elín.


Greint frá á Dv.is | Mynd: Sigtryggur Ari Jóhannsson