Kattavinafélag Íslands var stofnað 28. febrúar 1976 og fagnar því 40 ára afmæli sínu í ár.
Fyrsti formaður og hvatamaður að stofnun þess var dýravinurinn, Svanlaug Löve.
Tilgangur með stofnun félagsins var og er enn, að vinna að betri meðferð katta og standa vörð um að þeir njóti þeirrar lögverndar sem gildandi dýraverndunarlög hverju sinni, mæla fyrir um og stuðla að því að allir kettir eigi sér húsaskjól, mat og gott atlæti. Félagið hefur undanfarin ár kappkostað við að veita upplýsingar og ráðgjöf varðandi kattahald.
Fljótlega eftir stofnun félagsins var ljóst að sárlega vantaði húsnæði til að hýsa ketti, sem fundust á vergangi eða urðu viðskila við eigendur sína af einhverjum ástæðum. Til að byrja með veittu Svanlaug og Gunnar maður hennar, óskilakisum skjól á heimili sínu að Reynimel í Reykjavík. Er hægt að gera sér í hugarlund að þar hafi verið þröng á þingi á stundum, en þau hjón töldu aldrei eftir sér að hlú að þessum málleysingjum. Auk þeirra hýsti Dýraspítalinn í Víðidal óskilaketti af höfuðborgarsvæðinu.
Stjórn Kattavinafélagsins fór fljótlega að vinna að því að reist yrði athvarf fyrir þessi dýr og farið var af stað að fá lóð hjá Reykjavíkurborg og safna fé til byggingarframkvæmda. Stangarhylur 2 varð veruleiki, ermar brettar upp og hafist handa með bjartsýnina eina að vopni. Nánast frá upphafi komu dýravinir að byggingu Kattholts, með þá Einar Jónsson og Ingiberg Sigurðsson í broddi fylkingar í byggingarnefnd. Fleiri lögðu hönd á plóg, einstaklingar og fyrirtæki og reis húsið í áföngum. Fyrsta rými fyrir óskilakisur var opnað 29. júlí 1991 og voru vistarverur með moldargólfi og hurðar smíðaðar úr afgangstimbri. Allar götur síðan hefur verið unnið að því að fullgera athvarfið og getum við með stolti sagt að nú sé húsbyggingunni loksins lokið! Því síðastliðið sumar var lokafrágangur á þaki hússins. Í ár verða liðin 25 ár frá opnun Kattholts og verður gerð nánari grein fyrir starfseminni síðar.
Frá upphafi átti Kattholt góðan að þar sem var Brynjólfur Sandholt, héraðsdýralæknir og seinna Dýraspítalinn í Víðidal og starfsfólkið þar, sú aðstoð og samstarf hefur verið til heilla fyrir kisurnar í Kattholti. Mikið vatn hefur runnið til sjávar í þessari 40 ára sögu félagsins. Þúsundum katta hefur verið bjargað á ný heimili og týndum kisum komið til síns heima. Því miður er offjölgun katta staðreynd og enn vantar nokkuð upp á ábyrgð kattaeigenda. Brekkan hefur oft verið brött að sækja, rekstur dýraathvarfs kostar mikið fé og fyrirhöfn. Mikið álag og vinna hefur hvílt á herðum formanna í gegnum árin, skilningur stjórnvalda takmarkaður og sömuleiðis má segja að lög um dýravernd, einkum gæludýravernd verið óskýr og erfið í framkvæmd. Óskilakettir koma víða að í Kattholt, en þó aðallega af Stór-Reykjavíkursvæðinu og tekið tímana tvo að fá helstu sveitarfélög á svæðinu til samstarfs.
Þannig að víða hefur þurft að berjast þessa fjóra áratugi, en nú hyllir undir betri tíð með blóm í haga fyrir dýr þessa lands. Ný Lög um dýravelferð voru samþykkt frá Alþingi fyrir 2 árum og nýlega tók loks gildi reglugerð við þau. Í lögunum og reglugerð við þau er sérstaklega tekið á málefnum gæludýra. Kattvinafélag Íslands fagnar því mjög. Það er einlæg von núverandi stjórnar Kattavinafélags Íslands að framundan sé meiri skilningur og skilvirkari vinnubrögð þeirra aðila, sem að dýraverndarmálum eiga að koma.
Á afmælisári er okkur ljúft og skylt að minnast með hlýhug og þakklæti fyrrverandi formanna félagsins, stjórnarfólks og annarra velgerðarmanna, sem hvað ötullega hafa barist, bæði fyrir félagið og Kattholt.
Svanlaug var sem fyrr segir fyrsti formaðurinn, hún lést árið 1987. Við formennsku tók Ingibjörg Tönsberg næstu tvö ár á eftir. Síðan varð Sigríður Heiðberg formaður 1989. Hún gegndi formennsku, ásamt með að vera forstöðumaður Kattholts, þar til hún lést árið 2011. Má segja að hún og Kattholt hafi oftast verið nefnt í einu og sömu andránni og var iðulega talað um Siggu í Kattholti. Anna Kristíne Magnúsdóttir tók við af Sigríði 2011 og var formaður til 2013. Núverandi formaður félagsins frá 2013 er Halldóra Björk Ragnarsdóttir. Gegnir hún jafnframt stöðu forstöðumanns Kattholts.
Félagar í KÍS eru um 1.200 talsins og væri það dýrmæt afmælisgjöf að fjölga enn í þeim hópi. Á afmælisárinu þakkar stjórn félagsins af heilum hug, öllum þeim mikla fjölda einstaklinga, fyrirtækja, starfsfólki sínu og sjálfboðaliðum, sem lagt hafa hönd á plóg og stutt dyggilega við starfsemina. Sá velvilji sem félagið hefur mætt í gegnum tíðina, er ómetanlegur og án hans hefði draumur sporgöngumanna félagsins ekki ræst með þeim myndarbrag sem raun ber vitni.
Fh stjórnar KÍS
Eygló Guðjónsdóttir