Inn á vefsíðunni ykkar er að finna auglýsingu frá okkur frá 19.9. undir flokknum „eftirlýstir kettir“ með yfirskriftinni „Skólavörðustígur fundinn“.
Kisan hefur nú dvalið hjá okkur síðan og er búin að ná sér að fullu. Við héldum reyndar að hann væri heyrnalaus þar sem hann sýndi engin eðlileg viðbrögð við hljóði, en komumst af því síðar að vesalings dýrið var svo uppgefin og máttvana eftir þvælinginn. Hann svaf og borðaði til skiptis í viku og eftir það kom í ljós að ekkert var að honum.

Kári var fljótur að sætta sig við Skúla en hún Móa okkar blessuninn sem öllu ræður er enn svolítið vör um sig. Það stendur ábyggilega til bóta þar sem Skúli var á dögunum gerður að löglegum fress með því að fara í geldingu, örmerkingu, eyrnamerkingu, ormahreinsun, bólusetningu … og hvað þetta nú allt heitir.
Að þessu sögðu viljum við þakka ykkur kærlega fyrir að birta auglýsinguna af honum kisa sem fannst á Skólavörðustígnum – hann hefur nú eignast heimili þar sem hann er saddur og sæll alla daga.
Kær kveðja,
Anna María McCrann og Kristinn Örn Torfason
Óðinsgötu
Reykjavík