Kæra Kattholtsfólk

21 des, 2006






 
Ottó á Sófa


Í byrjun júní urðum við hjónin þess heiðurs aðnjótandi að fá lítinn sætan kisustrák hjá ykkur í Kattholti.


Hann hafði fengið nafnið Kanill hjá ykkur en við bættum nafninu Ottó fyrir framan þar sem hann er með svo fallegt O á höfðinu. Og svo er hann gulur, eins og Ottó nashyrningur í sögunni góðu. Fyrir áttum við hann Skaða stóran, svartan og fallegan strák. Við misstum bróður hans, hann Usla, í mars. Hann var með nýrnabilun og það var ekkert annað að gera að gefa honum hvíldina.


Þar sem Skaði var orðinn einbirni þá svaf hann bara allan sólahringinn þannig að ákveðið var að fá lítinn bróður handa honum. Og Siggi fór í Kattholt og fékk Ottó. Hann hafði fundist úti í hrauni í Hafnarfirði ásamt bróður sínum, nær dauða en lífi. En það var sko komið líf í þann stutta eftir dvölin hjá ykkur. Svo mikið líf að Skaði nennti sko ekki að þekkja hann. Ottó fannst svo gaman að vera hjá okkur að hann stoppaði bara aldrei svo Skaði gæti þvegið honum. Hvað þá kúrt með hann. Á heimasíðunni ykkar sáum við svo að bróðir Ottós var enn heimilislaus þannig að 10 dögum eftir að Ottó kom til okkar var gerð ferð til Reykjavíkur og hinn bróðirinn sóttur. Hann fékk nafnið Emil Negull.


Síðan þá hefur verið mikil hamingja í okkar Kisukoti. Ég held, svei mér þá, að þeir bræður Ottó og Emil hafi orðið glaðir að hittast aftur. Og Emil dýrkaði Skaða frá fyrstu mínútu og Skaði fékk loksins einhvern sem var til í að láta þvo sér. Oftar en ekki finnast þeir tveir kúrandi í faðmlögum. Og Ottó í nágrenninu.


Í kringum húsið okkar er stór garður með mörgum stórum trjám sem þeim bræðrum fannst mikið gaman að klifra í í sumar. Svo gaman að stundum stóðum við á öndinni og skipuðum þeim að koma niður þar sem þeir voru komnir í margra metra hæð. Frekar ánægðir með sig.


Ottó og Emil gætu ekki verið ólíkari, eiginlega er það eina sem er líkt með þeim er að þeir eru báðir kettir.
Ottó er frekar síðhærður og alveg dúnmjúkur hnoðri, með gulbrún augu, frekar óþægur og heldur stundum að hann sé hundur. Uppáhaldið hjá honum er að ná sér í efsta hlutann af puntstrái og koma með inn. Svo kemur hann með þetta til manns og þá á að henda því í burtu og hann skýst í loftköstum, sækir og kemur aftur með það. Og þá á að henda aftur. Svona getur þetta gengið lengi, lengi.


Emil er mun grennri í vexti, svartur og hvítur og mun rólegri. Hann er með alveg sérstök augu sem eru eiginlega tvískipt, dökk græn og ljós græn. Emil er ferlega dannaður meðan Ottó er svolítil brussa. En báðir er þeir mjög skynsamir og vita t.d. alveg hvað Nei þýðir. Og eins og hann Skaði fara þeir í fýlu ef við byrjum ekki á því að heilsa þeim þegar við komum heim úr vinnu.


Ég læt hérna fylgja nokkrar myndir af prinsunum okkar, vonandi hafið þið gaman af.


Við sendum ykkur hjartans þakkir fyrir að leyfa okkur að eiga þessa tvo gullmola. Og ég held að óhætt sé að segja að þeir þakki ykkur líka fyrir að leyfa okkur að eiga sig.


Bestu kveðjur úr Rangárþingi,
Siggi, Ásdís, Skaði, Ottó og Emil