Ágæta starfsfólk Kattholts.
Ég var svo heppin að fá frá ykkur kisu í jólagjöf, reyndar svolítið fyrir jól.
Kötturinn sá vitjaði nafns nóttina áður en hún kom hingað. Það var því aldrei nein spurning um að hún héti Jósefína.
Jósefína unir sér dável á Skaganum. Hún hefur ekki fengið að fara út en situr löngum úti í glugga og telur fuglana sem sveima fyrir utan gott ef hún hefur ekki líka séð hund!
Jósefínu hefur tekist að ala eiganda sinn (eða eigendur, eignarhaldið er dálítið á reiki því allir elska Jósefínu) þokkalega vel upp. T.d. á ekki að opna hér ísskáp nema henni sé hyglað ofurlítilli kjötflís eða harðfiskbita út þessum skáp.
Hún þekki mætavel hljóðið í skápdyrunum. Skrjáf í poka þýðir yfirleitt, að hennar mati, að eitthvað almennilegt sé í boði. Við svona tækifæri reykspólar fram í eldhús!
Þurrfóðurbitar sem er kastað fjörlega á gólf eru ætir, sömu bitar í þurrfóðurskál er þunnur þrettándi!
Jósefína sest núorðið til borðs með fjölskyldunni (enda einn aukastóll bersýnilega handa henni) en saknar hnífapara og verður að raka bita með loppunni niður á gólf til að geta notið hans.
Hún snertir þó engan mat nema henni sé boðinn hann sérstaklega (en gefur rækilega til kynna að hún ætlist til að sér sé boðið!).
Annað hvort verður eigandi Jósefínu að gerast harður húsbóndi með áherslu á þurrfóður eða kötturinn fitnar úr öllu valdi!
E.t.v. fær hún að fara út þótt mér finnist nú miklu þægilegra að hafa hana innikött einhvern tíma í sínu lífi hefur hún þó verið útiköttur.
Gallinn við útikisur er að þær eru oft duglegar að veiða og taka bráðina með sér inn! Einnig eru aðrir kettir ekki velkomnir inn til mín en hverfið er vaðandi í köttum!
Ég læt fylgja með bréfinu myndir af Jósefínu sem teknar voru skömmu eftir að hún flutti inn.
Einnig vísa ég ykkur á fésbókarsíðu sem Jósefína hefur stofnað undir nafninu Jósefína Dietrich (röddin kisunnar er djúp, mætti jafnvel kalla urgandi bassa í staðinn fyrir kvenlegt mjá).
Á Facebook síðunni sést að Jósefína er ljómandi hagmælt.
Kær kveðja frá mér og Jósefínu,