Stuttu fyrir jólin ’02 urðum ég og mamma fyrir því óláni að keyrt var yfir kisuna okkar hann Morra sem aðeins náði að verða u.þ.b. hálfs árs gamall.
Það var mikil sorg að missa litla gleðigjafann og dagarnir á eftir urðu tómlegir og dimmir án lítillar kisu sem tók á móti manni með faðmlögum þegar vinnudegi lauk. Fyrst ætluðum við mæðgur að láta þar við sitja og fá okkur ekki annan kött þar sem við óttuðumst að sama áfallið endurtæki sig, en að nokkrum tíma liðnum héldum við ekki út lengur og gerðum okkur ferð í Kattholt.
Það var dagur sem við munum seint gleyma. Kattholt er nefnilega stærri stofnun en margir halda og við vorum leiddar í herbergi eftir herbergi sem öll voru pakkfull af yndislegum dýrum sem þráðu ekkert heitar en athygli og blíðuhót. Satt best að segja vorum við mamma orðnar meira en lítið ráðvilltar, en þá rákum við augun í eitthvað stórt og loðið sem húkti úti í horni og virtist dapurt. Það var hann Ceasar sem frá þeirri stundu hefur gengt gælunafninu Sessi.
Við vitum ekkert um fortíð Sessa annað en að hann var þegar geldur og eyrnamerktur þegar við fengum hann í hendur og að hann hefur greinilega átt heimili áður en hann lenti á vergangi. Hann var hvekktur og hræddur í langan tíma eftir að hann kom til okkar og hélt sig aðallega undir rúmi. Ýmsir hlutir ollu honum mikilli hræðslu; t.d. að gengið væri um á háhæluðum skóm nálægt honum. Það tók langan tíma og fyrirhöfn til að fá litla skinnið til að treysta fólki á ný og slaka á í nýju og betra umhverfi. Í dag lifir Sessi góðu lífi hjá tveimur kattasjúkum konum sem láta allt eftir honum, enda hæfir ekki annað þegar slíkur höfðingi á í hlut.
Við viljum enn og aftur þakka Kattholti fyrir það frábæra starf sem þar er unnið, og að hafa séð okkur fyrir þeirri gersemi sem kisinn okkar er.
Kveðja,
Dóra og Ingibjörg kisukonur.