Herbert var týndur í 2 mánuði, komin í fang fjölskyldu sinnar.

5 jan, 2010

Sæl í Kattholti og gleðilegt ár,

 
Það er ykkur að þakka að kötturinn okkar hann Herbert er fundinn.

 

Honum var komið í fóstur í nóvemer sl. í Hafnarfirði vegna þess að fjölskyldan var að flytja í nýja íbúð og í sama húsi er fólk með kattaofnæmi svo Herbert var ekki samþykktur.

 

Auk þess er íbúðin á annarri hæð svo því fylgja einnig vandamál.  Herbert strauk eftir eina viku í vistinni í Hafnarfirði og ekkert spurðist til hans.

 

Ég hafði samband við ykkur í Kattholti og sendi mynd með upplýsingum sem þið settuð á vefsíðuna 2. des. sl. 

 

Þann 30. des. sl. hafði ung kona samband við mig og sagði að köttur sem passaði við lýsinguna kæmi til hennar á kvöldin og nóttinni til að borða, þar sem hún var sjálf með kött og kattalúgu. Hann var mjög fælinn sagði hún og henni hafði ekki tekist að króa hann af.

 

Síðan leitaði hún á vefsíðu Kattholts og sá þar mynd af honum Herbert og lýsingin passaði. Þá hafði hún samband og tókst að króa Herbert af næstu nótt. 

 

Dóttir mín sem á Herbert hefur verið búsett í London í vetur. Hún er einmitt hér heima yfir jól og nýár og hún fór glöð af stað og náði í köttinn sem reyndist vera Herbert.

 

Hann þekkti okkur strax og hún kom heim með hann  og nú gerum við allt til að þurfa ekki að láta hann frá okkur aftur.

Eftir þennan erfiða tíma að vita ekki um afdrif Herberts hef ég gert tilraun til að semja við fólkið með kattaofnæmið, í ljós kom að það eru nákomnir ættingjar sem eru með kattaofnæmið.

 

Þau féllust á að við fengjum að hafa Herbert á meðan hann fer ekkert í sameignina.

 

Því þurfum við nú að leysa málið með kattastiga af svölunum á annarri hæð. Dóttir mín er á fullu að „gúgla“ á netinu og finna lausnir á kattastigum.

 

Ef þið vitið um einhverja sem búa til eða selja góða kattastiga þá endilega látið mig vita.

Ég og dóttir mín erum ykkur ævinlega þakklátar fyrir ykkar góða starf.

Kær kveðja,
Ingibjörg Karlsdóttir og Anna Tara Andrésdóttir
gsm 863-6394.

 

 

 

Innilegar hamingjuóskir kæra fjölskylda.

 

Kveðja Sigga.