Henríetta og fjölskylda senda kveðju í Kattholt

3 feb, 2009








 
 


Hér kemur mynd af sætustu kisustelpu í bænum.


Við tókum hana Henríettu Heiðberg að okkur í ágúst 08.


Þá var hún 2 mánaða grey sem hafði verið ein á vergangi í veröldinni, en fyrir lukku komist til ykkar í Kattholt.


 


Við köllum hana Henný, hún varð mikið veik á fyrstu dögunum hjá okkur, hún fékk lungnabólgu tvisvar sinnum og var ekki hugað líf.


 


Það var ekki fyrr en að ég bað frænku mína Sigríði Heiðberg að hjálpa mér með litla sjúklinginn að hlutirnir fóru að ganga, ég fór heim úr vinnu þennan dag því dóttir mín 13 ára var ein heima með Henný og var svo hrædd því dýrið orðið svo veikt aftur.


 


Ég hringdi í Siggu frænku mína og bað hana um hjálp, hún lét leggja Henný inn á Dýraspítalann í Víðidal.


 


Þegar dýralæknirinn skoðaði Henný sagðist hún ekki vongóð um að geta bjargað henni þar sem hún var mjög veik, ég og dætur mínar kvöddum litlu kisustelpuna okkar eins og við kæmum ekki til með að sjá hana aftur, þetta var á föstudegi.


 


Sigga hringdi í mig á laugardeginum og sagði að hún væri í sjúkravitjun á Dýraspítalanum og að Henný væri eitthvað að braggast. 


 


Helgin leið og á mánudagsmorgun fékk ég gleðilegt símtal frá dýraspítalanum um að Henný væri orðin svo hress að ég mætti sækja hana þennan dag eftir vinnu.


 


Henný hefur alltaf haltrað um með aftari fætur og er hjólbeinótt að framan, mjög einkennileg, þannig að við ákváðum að láta mynda hana þegar hún var tekin úr sambandi í desember og þá kom í ljós að hún er með mjaðmalos í báðum mjöðmum sem er víst mjög sjaldgæft hjá kisum.


 


Henný fer mjög varlega og er ekki hrifin af því að fara frá húsinu, við hleypum henni út en hún fer bara á stéttina hér fyrir framan og horfir í kring um sig, svo kemur hún inn.


 


Henný er algjört matargat og lifir fyrir það að borða …. hún er dekurrófa og fær að sofa á flísteppi uppí hjá mömmunni á bænum. Henný eignaðist um jólin litla vinkonu í næsta húsi sem heitir Halla og er 3 mánaða kisustelpa, þær leika sér saman á hverjum degi.


 


Henríetta er yndislegur karakter, hún er mjög viðkvæm og kann sín takmörk eins veikburða manneskja. Ég hefði ekki viljað missa af því að kynnast henni og fá að hafa hana hjá okkur.


 


Bestu þakkir fyrir allt


Ragnhildur Heiðberg.


 


Henrietta kom 28. júlí í Kattholt köld og lasin, þá 2 mánaða gömul . Hún var búin að gráta í marga klukkutíma fyrir utan hús við Þverholt í Reykjavík. Var síðar greind með lungnabólgu.


Hún var svo döpur í augunum sínum litla skinnið.


 


Kæra frænka, Takk fyrir að bjarga litlu kisunni.


Ég er svo montin að þú skulir vera bróðurdóttir mín.


 


Kær kveðja til dýravina.


Sigríður Heiðberg formaður.