Heiftarlegt rifrildi varð Kattholti til góðs!

19 ágú, 2011


Rithöfundurinn Gunnar Theodór Eggertsson, afhenti Önnu Kristine Magnúsdóttur, formanni Kattavinafélagi Íslands allan ágóða af sölu bókarinnar ,,Köttum til varnar“ sem JPV forlag gaf út. Þarna eru þau Gunnar, Anna og Jóhann Páll, ásamt stjórnarformanni JPV forlags, Randveri, en endurskoðandinn, kisan Brandur, þaut fram til að millifæra peningana strax yfir á bankareikning Kattholts og gat því ekki verið viðstaddur myndatökuna.
(Mynd: Teitur, Fréttatíminn)


Það vildi Kattholti til happs að í fyrra lenti rithöfundurinn Gunnar Theodór Eggertsson í heiftarlegu rifrildi á Fésbókinni vegna tillögu um ný lög í sveitarfélaginu Árborg.


Tillagan fólst í því að kettir ættu að lúta sömu reglum og hundar, það er: að fara ekki út nema í bandi. Nema hvað.


Umræðurnar urðu svo langar og Gunnar Theodór átti svo margar blaðsíður af efni, að hann ákvað að setja saman heimspekilega smásögu í samræðuformi.


Bókin ber nafnið ,,Köttum til varnar“.  JPV forlag gaf bókina út og tók ekkert fyrir umbrot, prófarkalestur o.fl. og Gunnar Theodór þáði engin höfundalaun, þannig að hreinn ágóði af sölu bókarinnar, 177.300 krónur afhenti Gunnar Theodór formanni Kattavinafélagsins í vikunni til uppbyggingar í Kattholti.


Peningarnir koma sér ákaflega vel, þar sem nú þarf að sinna brýnum verkefnum í Kattholti. Ennfremur gáfu JPV forlag og Gunnar Theodór þær bækur sem eftir eru til Kattholts, þar sem þær verða seldar á kr. 1.000 stk. og rennur allur ágóðinn beint til rekstur Kattholts. Eru Gunnari Theodór og Jóhanni Páli færðar miklar þakkir fyrir stórkostlegt framlag til velgjörðarmála í Kattholti.