Haukur Henderson, góðvinur Kattholts er látinn

29 nóv, 2005

Haukur Henderson,  góðvinur Kattholts og gjaldkeri Kattavinafélags  Íslands til margra ára, er látinn langt um aldur fram. Fyrstu kynni mín af Hauki urðu fyrir 13 árum þegar hann hringdi í mig og tilkynnti að hann hefði fundið tvo bjargarlausa kettlinga sem voru á vergangi vestur í bæ. 


Hann hlúði að þeim af mikilli elsku, nefndi þá Ra og Osiris og fóstraði þá báða til dauðadags.  Þessi atburður var upphafið að vináttu okkar sem aldrei bar skugga á.  Ekkert sem viðkom kisunum í Kattholti lét hann sér óviðkomandi og var ávallt reiðubúinn að leggja málefnum þeirra lið.


Það var mikil gæfa fyrir Kattavinafélagið að fá að njóta starfskrafta Hauks og gjafmildi.  Fyrir það verður seint fullþakkað.


Að leiðarlokum bið ég Guð að blessa vegferð hans til æðri heima.


Sigríður Heiðberg