Hættur í myrkrinu

29 Oct, 2022

Tilkynningar um dána ákeyrða ketti eru því miður allt of tíðar þessa dagana. Á þessum árstíma tekur að skyggja fyrr á kvöldin og af þeim sökum er erfiðara að sjá kettina í myrkrinu. Kettir eiga til að skjótast fyrir bíla mjög snögglega og ökumaður á mikilli ferð á erfitt með að koma í veg fyrir slys.
Við beinum þeim tilmælum til ökumanna farartækja að aka sérstaklega varlega, einkum í íbúðahverfum þar sem margir kettir búa og virða hámarkshraða. Með því að vera vakandi og fara varlega getum við mögulega forðað köttum frá slysum og dauða.
Ef svo óheppilega vill til að slys verður er mikilvægt að ökumaður hafi samband við lögreglu eða bæjarstarfsmenn í sínu bæjarfélagi og biðji um að kettinum verði komið á dýraspítala til að kanna hvort hann sé örmerktur. Einnig geta ökumenn sjálfir komið köttum til dýraspítala.
Eigendur katta þurfa að gera ráðstafanir. Nauðsynlegt er að hafa ketti með góðar endurskinsólar. Auk þess er hægt að fá lítil ljós í mörgum gæludýraverslunum sem festar eru á ólarnar. Gott er að halda köttum innandyra á nóttinni.