Góðærið komið í Kattholt

27 okt, 2008


Á meðan flestir Íslendingar nutu góðs af góðærinu var einn staður sem fann það ekki snerta sig beint. Met var slegið í fjölda heimilislausra katta á árinu 2007, þegar góðærið var að ná hámarki.


Allir á kafi í vinnu og að lifa lífinu, fara til útlanda og skemmta sér. Á meðan hafi enginn tíma til að hugsa um kisur, þeir sem áttu kisur höfðu ekki tíma til að hugsa um þær og fjöldinn af köttum í Kattholti jókst með hverri vikunni. Kettir flúðu að heiman í massavís. Síðasta sumar komu fréttir í blöðin um að fólk svæfði kettina sína svo það gæti farið í sumarfrí án þess að hafa áhyggjur af kettinum. Þessar fréttir eru ekki fallegar, sýna ekki manngæsku og hlýju.


En kettir eru þó vinsælustu gæludýr í heimi, yfir 600 milljón heimili í heiminum hafa ketti sem gæludýr. Því er kemur það ekki mikið á óvart að nú þegar þrengir að heimilum leitar fólk í hlýju kattanna. Í byrjun síðustu viku komu fréttir af því að mikið af fólki sé að fá sér kisur úr Kattholti. Síðasta föstudag var búið að taka svo marga ketti úr Kattholti að kisumamma Íslands, Sigríður Heiðberg, hafði ekki náð að setjast niður og telja hversu margir kettir voru farnir á ný heimili. Á heimasíðu Kattholts stendur að á tímabilinu 1 – 15.október hafi komið inn 22 kettir, því er í raun ekki vanþörf á að fá flæði fólks til að ættleiða kisur.


Fyllum í tómarúmið


En hvers vegna eru svo margir að ættleiða kisur núna? Mín skoðun er sú að velmegunin hafi gert okkur svo mörg köld og gráðug. Vinna meira, kaupa meira og vera minna heima. Ef tómarúm myndaðist í okkur, leituðum við að efnislegum leiðum til að fylla upp í tómið. Verslunarferðir orðnar eðlilegur hluti af lífi nútíma Íslendings. Svo kemur skellurinn sem enginn vildi sjá fyrir og nú neyðast margir til að lifa með tómarúminu eða jú, fá sér kisu. Það er að mínu mati fyllilega góð og gild leið til að fylla í tómarúmið sem myndast hjá flestum íbúum vestræns heims, á einhverjum tímapunkti í þeirra lífi. Hver hefur ekki heyrt um fólk sem fer og kaupir sér eitthvað til að láta sér líða betur. Hvort sem það er ís, föt eða tölvuleikir. Nú eru kettir nýja uppfyllingarefnið. Að eiga gæludýr kennir fólki þó svo margt um virðingu og kærleika að ég tel þetta góða lausn. Enginn þarf heldur að hafa áhyggjur af því að kisurnar klárist, það er engin vöntun á köttum úr Kattholti í leit að góðu heimili.


Umræðan í fjölmiðlum landsins síðustu vikur hefur einkennst af ástandinu sem margir kalla kreppu. Ýmist er fólk að kvarta, skammast eða annað neikvætt varðandi þetta allt saman. Ef maður vill aðeins létta sér lund þá skoðar maður varla blogg, (hinn frægi Perez minntist á að Ísland væri að bráðna) eða aðrar íslenskar síður án þess að vera sífellt minntur á þetta rugl. Ég rakst hins vegar á gott blogg hjá Katrínu.is þar sem hún segir að eina sem maður geti skoðað þessa dagana ef maður er í leit að léttu efni , sé Cute Overload og ég er hjartanlega sammála henni. Til þess að ljúka þessari grein í algjörri væmni læt ég ljóð Ólafs Hauks Símonarsonar, Vetrarsól, fylgja með enda á það við þessa dagna…


Vetrarsól
Hvers virði er allt heimsins prjál
ef það er enginn hér
sem stendur kyrr
er aðrir hverfa á braut
sem vill þér jafnan vel
og deilir með þér gleði og sorg.
Þá áttu minna en ekki neitt
ef þú átt engan vin.


Hvers virði er að eignast allt
í heimi hér
en skort þetta eitt
sem enginn getur keypt.
Hversu ríkur sem þú telst
og hversu fullar hendur fjár
þá áttu minna en ekki neitt
ef þú átt engan vin.


Það er komin vetrartíð
með veður köld og stríð
ég stend við gluggann,
myrkrið streymir inn í huga minn.
Þá finn ég hlýja hönd
sál mín lifnar við,
eins og jurt sem stóð í skugga
en hefur aftur litið ljós
mín vetrarsól


Greint frá á Vefritið.is | Það var Lára Jónasdóttir sem skrifaði þessa grein