Á heimili mínu eru allir frekar sorgmæddir í dag.
Gæðakötturinn okkar hann Tinni er fallinn frá á 18. aldursári, sem þykir víst nokkuð hár aldur af ketti að vera.
það nálgast níunda tuginn ef miðað er við okkur mannfólkið.
Tinni var alveg einstakur köttur og hafði svo sannarlega níu líf.
Hann kom inn í fjölskylduna árið 1996 þegar foreldrar mínir fluttu til Þingvalla á ný. Þá var hann fimm ára.
Pabbi, Heimir Steinsson, fór þá í Kattholt til þess að taka að sér kött til músaveiða á Þingvallabænum.
Tinni hafði þá fyrir nokkru fundist illa til reika í höfuðstaðnum, nær dauða en lífi, yfirgefinn af fyrri eigendum og einmana.
Það átti eiginlega að lóa honum því enginn vildi eiga svona gamlann fress. Hann var líka stór og mikill og lét ekki bjóða sér hvað sem var.
En pabbi varð strax hrifinn af Tinna þegar hann sá hann í búrinu í Kattholti. Og sú hrifning var gagnkvæm.
Tinna var sem sagt bjargað enn á ný – og bjó hann nú á Þingvöllum til ársins 2000.
Urðu þeir Tinni og pabbi miklir félagar og flutti Tinni fljótt úr kjallaranum upp í stofu. Þetta voru ljúfir kattardagar.
En árið 2000 féll pabbi frá og mamma fluttist aftur í höfuðstaðinn. Og nú voru góð ráð dýr með Tinna.
Enn og aftur.
Mamma, Dóra Þórhallsdóttir, gat ekki haft hann og enn virtist sem dagar hans væru taldir.
En við, ég og konan mín og dæturnar, ákváðum að gera tilraun með að taka hann að okkur og bjóða honum heimili í Hafnarfirði.
Og viti menn!
Tinni varð alsæll hjá okkur og við alsæl með hann.
Hann kippti sér ekkert upp við flutninginn – og enn síðar þegar við nokkrum árum síðar fluttum okkur aftur um set.
Hann var fljótur að merkja sér svæði, gekk inn og út eins og kóngur í ríki sínu, réð öllu í hverfinu með hörku, hrakti burt villiketti og mýs en var blíður og góður við okkur.
Og malandi tók hann á móti gestum og gangandi.
Þegar hundurinn Gosi flutti inn fyrir sjö árum tók Tinni honum strax sem hverjum öðrum „ketti“.
En Gosi vissi líka alltaf hver réð á heimilinu. Það var Tinni að sjálfsögðu og Gosi hlýddi „þeim gamla“.
Og nú er Tinni, stóri, gamli, svarti fressin okkar horfinn á braut.
Við fjölskyldan þökkum honum samfylgdina og óskum honum góðrar ferðar inn í eilífðina.
Hann var mikill heiðursköttur.
Kæri Þórhallur og fjölskylda.
Ég gleymi aldrei þegar pabbi þinn kom í Kattholt og valdi sér kisu.
Kött á Þingvöll? Það varð að vera veraldarvanur köttur.
Þar sem að séra Heimir var vinur minn, varð ég að vanda mig.
Ég gekk með honum að búri sem í var svartur högni, sem trúlega var búinn að reyna ýmislegt í lífinu.
Og viti menn, það varð ást við fyrstu sýn.
Ég vil votta þér og fjölskyldu þinni samúð mína við brottför hans.
Kær kveðja.
Sigga.