Á safninu hjá okkur höfum við kött sem heitir Hr. Hippopotamus. Við köllum hann Hippó í daglegu tali. Þetta er bústinn og sællegur köttur og er allra manna hugljúfi.


Í það minnsta þá vekur hann gríðarlega gleði hjá gestum okkar sem koma hingað inn svo mikið að þeir nánast ryðjast hver um annan þveran til að fá að knúsa hann og klappa. Þær eru ófáar myndirnar sem hafa verið teknar af honum. Hann er mikill gleðigjafi og karakter eftir því.


Nýverið las ég um það á einhverjum miðlinum að Kattholt ætti í verulegum vandræðum við að ná endum saman og hryggði það okkur nokkuð að frétta af því, vitandi af því góða starfi sem hefur verið unnið hjá Kattavinafélaginu. Því höfum við ákveðið að gefa út póstkort með mynd af Hippó til styrktar Kattholti og mun allt andvirði af sölu þeirra renna til ykkar.


Kortið er í prentun þessa stundina og við vonumst til þess að það fari í sölu fyrir miðjan september. Það prýða myndir af Hippó báðar hliðar póstkortsins og það er skemmtilegt að segja frá því að við völdum myndir sem voru teknar af gestum safnsins og síðan sendar okkur.


Ég sendi ykkur meðfylgjandi útlit kortsins. Allur textinn á því er á ensku og við höfðum að hluta til hliðsjón af texta sem finnst á heimasíðu Kattholts.


Ég vona að þið takið vel í þetta framtak okkar.


Með góðri kveðju,
Sigurður Atlason
www.galdrasyning.is