Eygló sendir baráttukveðjur.

13 júl, 2008

Sæl og blessuð Sigríður.


Hún Mússa þín er nú algjört yndi. Alveg einstök leyfi ég mér að segja. Bara takk fyrir þessa fallegu mynd af henni og kettlingnum.


 


Ég get ekki hætt að furða mig á af hverju allar þessar kisur lenda á vergangi. Af hverju passar fólk ekki betur upp á dýrin sín? Það er eins og ábyrgðartilfinning sé ekki til staðar hjá sumum kattareigendum.


 


Víst getur komið upp óviðráðanlega staða þannig að dýrin hverfi, en samt er okkur trúað fyrir þeim og eigum að gæta þeirra. Eða þannig lít ég á það. En allur þessi fjöldi sem kemur í athvarfið til ykkar segir auðvitað meira en nokkur orð.


 


Það er þyngra en tárum taki að horfa upp á allar þessar kisur sem maður mætir t.d. hér í mínu hverfi (Holtunum), margar illa til reika, svangar og þreyttar. Sama sagan er þegar labbað er um Miðbæinn eða Þingholtin, þær verða allstaðar að vegi manns.


 


Kannski sýnilegri núna þegar veðrið er gott, skal ekki segja. Ég hef gert það að vana mínum að gefa kisum hér í nágrenninu, sem ég sé að eiga bágt. En til allrar hamingju sér maður líka fullt af vel höldnum og vel hirtum kisum.


 


Ég yrði þakklát ef þú vildir vera svo góð að koma eftirfarandi á framfæri fyrir mig:


Ég vil hér með skora á dýravini að gefa kisum sem er á vergangi í svanginn. Kattafóður kostar engin ósköp. T.d. í Bónus er bæði blaut- og þurrmatur á mjög góðu verði.


 


Ég get að minnsta kosti lofað því að það eru þakklátar kisur sem maður gaukar einhverju að og það veitir manni sjálfum vellíðan að verða dýri í neyð að liði.


Áfram baráttukveðjur í kattholt, þið vinnið ómetanlegt starf.


Eygló G.


 


Ég setti inn þessa skemmtilegu mynd sem var send í Kattholt. Kær kveðja Sigga.