Sæl og blessuð Sigríður.
Ég las þessa grein í 24stundum sem þú minntist á í gær. Og alveg gengur hann fram af manni þessi meindýraeyðir. Hvað gengur honum eiginlega til, var það fyrsta sem ég hugsaði.
Er hann að kynda undir að fólki, sem er illa við ketti og fer illa með ketti, verði enn verra við þá?
Veit maðurinn ekki að kettir sem eru villtir eru það oftar en ekki af völdum manna, sem haldnir eru ábyrgðarleysi og illu innræti? Villtir og vegalausir kettir verða sér að sjálfsögðu úti um æti á allan mögulegan máta og verða þar af leiðandi oft veikir.
Kettir eru jú kannski villidýr í eðli sínu að því leyti að þeir veiða sér til matar. Við veiðum líka og drepum dýr okkur til matar?
Hundar geta einnig borið smit í fólk. Þeir geta líka verið grimmir og þess eru dæmi að hundar stórskaði og jafnvel drepi fólk. Eru þeir þá líka meindýr?
Nei, kettir og hundar og jafnvel fleiri dýr, verða grimm vegna hungurs og slæmrar meðferðar. Það er þeirra eðli til að verja sig og afkvæmi sín. En sýni maður þeim elsku og umönnun, fær maður það margfalt til baka.
En eftir sem ég hugsa meira um þessa grein og þegar reiðin fór að sjatna í mér, kemst ég helst að þeirri niðurstöðu að manngreyið sé að snapa sér vinnu með skrifunum. Hræða fólk svo það líti á ketti sem meindýr og láti eyða þeim og leiti þá til hans. Gæti það verið mergurinn málsins? Ég bara spyr.
Því miður þegar á allt er litið er mannskepnan sennilega sú grimmasta og hættulegasta, í.þ.m. ræðst engin jafn heiftarlega gegn eigin tegund og hún.
Bara svona mín hugleiðing.
Sendi bestu páskakveðjur í Kattholt.
Eygló G.