Eygló fannst ljós í myrkrinu hvernig Elísabet brást við.

15 maí, 2008

Kæra Sigríður og aðrir í Kattholti.


Mikið er skelfilegt að lesa um miskunnarleysið og óvirðinguna sem dýrum á þessu landi er sýnd. Maður verður bara gjörsamlega miður sín og getur rétt ímyndað sér hvernig þér líður með allt sem þú og þitt fólk þurfið að horfa upp á.


 


Eitt dæmi um hvernig fólk er við dýr las ég í bloggi einhvers Sigurjóns V. Þar segir hann frá að kisugrey hafi villst inn um glugga hjá honum og svo stærði hann sig af því að hafa náð að lemja kisuna tvisvar! Fannst hann mikill kall. Ekki nóg með það, heldur hrósuðu vinir hans honum fyrir frammistöðuna og gott ef mamma hans hældi honum ekki líka.


 


Mér var allri lokið við þennan lestur, en vinkona mín hafði bent mér á þetta. Er von á góðu? Ég bara spyr. Hugsum okkar hvernig börn á þessu heimili, þ.e. ef þau eru til staðar, koma fram við dýr.


 


Öll vitum við að börnin læra það sem fyrir þeim er haft og það er sorgleg staðreynd að ofbeldi í öllum myndum, hvort sem er gagnvart fólki eða dýrum, tröllríður öllu hér. Engin þorir eða vill skipta sér af þótt þeir verði vitni af ofbeldi.


Hvaða máli skiptir þá þótt eitt kattargrey engist í dauðateygjunum fyrir framan fólk, nei engu máli, það kemur því ekki við.


 


Frásögn Elísabetar var ótrúlega sorgleg og ljót, en auðvitað ljós í myrkrinu hvernig hún brást við.


 


Bið að heilsa fólki og dýrum í Kattholti,


Eygló G.