Á þriðja hundrað landnámshænur og tveir kettir drápust í eldsvoða
Á þriðja hundrað landnámshænur og tveir kettir drápust í eldsvoða á bóndabæ á Vatnsnesi seint í nótt. Eldur kviknaði í útihúsi á bænum Tjörn sem er mitt á milli Hvammstanga og Blönduósar.
Útihúsið var tengt íbúðarhúsinu og var alelda þegar lögregla og slökkvilið kom á vettvang í nótt. Inn í útihúsinu voru um 900 egg sem voru við það að fara klekjast út að sögn varðstjóra á Blönduósi.
Slökkviliðinu tókst að koma í veg fyrir að eldur læsti sig í íbúðarhúsinu sem var samtengt útihúsinu, og samanstóð af hlöðu, bílskúr og fjósi.
Tjón bóndans er gríðarlegt að sögn lögreglunnar. Auk dýranna sem drápust brann mikið af tækjabúnaði inni. Ekki er vitað um eldsupptök en málið er til rannsóknar.
Vísir.is Fréttir.