Fyrirgefðu mér elsku Branda mín. Ég á engan séns og þú átt engan séns, í örlög sem virðast óumflýjanleg. Við getum ekki barist við óréttlátt kerfi og óréttláta menn.
Þú verður að víkja fyrir hænum sem ganga lausar og lokka þig að húsi í rúmlega 300 metra fjarlægt frá heimilinu þínu. Ég get ekki bannað þér að fara út, þegar mamma þín og bróðir þinn fá að fara út. Þú ert búin að finna spennandi svæði, sem dæmt hefur þig til dauða.
Þannig er mál með vexti að þegar ég fór með þig í geldingu, þína fyrstu bólusetningu og ormahreinsun fyrir rúmum þremur árum síðan (dýraspítalinn í Víðidal) hélt ég að þetta yrði allt framkvæmt. Fyrir þetta borgaði ég stóra upphæð og mér var tjáð að þú værir orðin lögleg.
Í dag komst ég að því að örmerkingin var aldrei framkvæmd og skráð og ég kjáninn hef staðið í þeirri meiningu að þú varst örmerkt. Ólin þín var þess vegna það eina sem tengdi þig við mig og son minn sem þú hefur tekið ástfóstri við. Ól sem getur hæglega dottið af. Samt er þetta ekki alvarlegasta málið í stöðunni, þó alvarlegt sé.
Ég komst að þessu í dag vegna þess að þú varst veidd í búr, sem var sett sérstaklega við hænsnabýli eitt, til að veiða villiketti. Búrið er staðsett við Króksháls í 300 metra fjarlægð frá heimilinu þínu og þar eru hænsni og silungarækt og annað spennandi. Ennþá meira spennandi er sú staðreynd að hænsnin ganga laus. Ég tók myndir af hænsnunum fyrir þig, til að sýna öllum. Maðurinn sem á húsið fékk búr hjá meindýravörnum og stundar þá iðju að veiða kisur í búrið, (svo segir allavega konan hans). Hann veiddi þig í búrið til að koma í veg fyrir að þú réðist á fiðurfé hans. Þú kisan mín, svona forvitin ferð án efa á svæðið til að skoða hænurnar og hanann. Í leiðinni finnur þú lykt af lokkandi búrinu og læsist inni í því.
Maðurinn sem á hænurnar fer síðan með þig til meindýraeyðisins, þrátt fyrir að þú sért með tvær stórar klingjandi bjöllur og stóra tunnu um hálsinn, sem sýnir greinilega að þú er heimilisköttur. Af hverju gerði hann það? Við hverju bjóst hann? Þú varst lokkuð á fölskum forsendum í búrið með hænur sem beitu. Hvernig áttir þú að standast hænurnar fallegu? Hvers vegna fer maðurinn með vel merktan heimiliskött til meindýraeyðis? Hvað vakir fyrir honum? Hvernig geta meindýravarnir látið hænsnaeiganda fá búr sem öruggt er að kisur koma í, þegar fiðurfé gengur laust umhverfis húsið hans (meindýraeyðirinn vissi af hænunum).
Þessi maður er langt frá því að vera hlutlaus eða jákvæður gagnvart þér, Branda mín. Hann getur ekki verið hlutlaus með allar sínar hænur á staðnum (sama hvað meindýraeyðirinn segir).
Svo hringir Sigríður í Kattholti um morguninn og segir mér að sækja þig. Fyrir þetta á ég að borga mörg þúsund krónur (sem ég á ekki vegna þess að gjaldeyrislánin hafa næstu sent mig í gjaldþrot).
Ég hringdi í starfsmann umhverfissviðsins sem fór með þig í Kattholt til að spyrja hvað eiginlega gerðist og hvort hann sé tilbúinn að falla frá þessum sektum. Þá tjáði hann mér, elsku Branda, að þú værir að valda miklu ónæði og hefðir verið veidd í búr (lygi sem uppgötvaðist þegar ég ræddi við konuna á bænum. Hún hafði aldrei séð þig áður).
Það er ekki líkt þér að ónáða fólk og ég var mjög ósátt við söguna sem ég fékk frá meindýraeyðinum. Þú áttir að hafa verið tekin til fanga í hinum enda hverfisins (þú býrð í 300 metrar fjarlægð frá hænsnabýlinu), þú áttir að hafa verið búin að ónáða í meira en mánuð (líka lygi, samkvæmt eiginkonu mannsins) og hænsnaeigandinn átti loksins að hafa misst þolinmæðina og hringt á meindýraeyði sem kom með búr til að veiða þig (líka lygi samkvæmt eiginkonunni því þarna er reglulega sett upp búr til að veiða villiketti). Svo koma fleiri misvísandi upplýsingar frá meindýraeyðinum, sem heitir Þráinn.
Ég vildi fá að ræða við manninn sem átti hænsnin (nei, nei, nei, kom ekki til greina), og þegar ég þrýsti á svör þá var það hvort eða er vonlaust því hænsnaeigandinn átti að hafa farið til útlanda um morguninn (heldur ekki rétt, hann fór bara í vinnuna, samkvæmt eiginkonunni).
Svo virtist sem þessir menn þekkjast ágætlega (svolítið grunsamlegt), þvi meindýraeyðirinn lofaði hænsnaeigandann í hástert, sagði hann öndvegismann.
Meindýraeyðirinn segir að maðurinn sem tók þig myndi aldrei ljúga upp á þig sökum. Allt annað kom svo á daginn, þegar ég ræddi við konuna hans, sem vildi alls ekki viðurkenna að þú værir þessi mikla plága sem meindýraeyðirinn segir þig vera.
Síðasta lygin frá meindýraeyðinum var síðan sú að yfirmaður meindýraeyðisins átti að vera komin í sumarfrí og ég skyldi láta málið falla niður (lagði hart að mér að gera það). Borga mína sekt, halda þér inni og gleyma þessu. Sætta mig við þetta óréttlæti. Sætta mig við að láta svæfa þig, því ef þú færir aftur á svæðið myndir þú verða veidd. Svo mikið er ónæðið af þér. Svo hélt hann tölu um kött, sem hann hafði átt einu sinni, sem var að valda svo miklu ónæði að ekkert var annað hægt að gera, en að lóga honum. Ég átti ekki til orð.
Elsku kisan mín, þetta var ekki þér líkt og ég varð meira og meira ósátt eftir því sem hann talaði lengur um þig og hvernig ég skyldi taka á málinu. Þetta var allt orðið svo grunsamlegt.
Elsku Branda, auðvitað veit ég allt um þínar ferðir. Ég þekki þig og veit að þú ferð ekki langt frá mér. Ég veit að þú ert góð kisa og forvitin og hænsnabýlið (ólöglega) lokkaði þig. Þú ert að leika þér þarna á svæðinu í 100 metra fjarlægð frá heimili þínu. Þarna er greniskógur og margir skjólgóðir staðir. Ég vissi líka að þú myndir aldrei ráðast á hænur bóndans. Samt grunaði mig að hann væri orsökin að þessu öllu. Þess vegna labbaði ég að hænsnabýlinu, til að kanna hvort þau hefðu tekið þig. Viti menn, ég hitti eiginkonu eigandans og hún játaði það að þú varst veidd þarna um morguninn.
Ég fór niður að bænum til að hitta á hjónin (í þessa sinn með afa) og í bæði skiptin hitti ég eiginkonu mannsins sem kannaðist við það að þú varst fjarlægð. Jú, hún kannaðist svo sannanlega við þig. Sagði að köttur hefði komið í búrið í nótt, ósköp róleg, eins og þetta væri bara daglegur viðburður. Hún virtist ekkert gera sér grein fyrir því að hversu alvarlegt þetta mál var fyrir mig og þig. Eða, að þú kisa mín áttir að hafa verið þvílík plága (að sögn meindýraeyðisins).
Á meðan ég spjallaði við hana, tók sonur minn, sem var með mér í fyrra skiptið, myndir af hænunum að spígspora villtar fyrir utan lóðarmörkin, kisum, villtum sem tömdum, til mikillar freistingar.
Ég fór heim, miður mín og hringdi í yfirmenn umhverfissviðs, Guðmund Björnsson og Guðmund B. Friðriksson (Þráinn sagði mér að yfirmaður hans væri komin í sumarfrí og ekkert þýddi að vera að gera mál úr þessu. Hmmm, skrítið, af hverju var svona mikilvægt að þagga niður í mér?).
Alla vega, Guðmundarnir vildu ekki sjá óréttlætið í þessu öllu. Sögðu að þeim kæmi ekkert við, þessar hænur á svæðinu. Samt fannst þeim allt í lagi að láta búr af hendi til bónda.
Þá hringdi ég í annan yfirmann, sá heitir Björn, en hann veitir fólki hænsnaleyfi. Björn lét mig vita að hænurnar þarna eru í algjöru óleyfi og var ekkert hissa á áhuga þínum, kisa mín, á þessum spennandi dýrum fyrir neðan hæðina. Honum fannst líka gróft að lokka þig á svæðið með þessum aðferðum. Allir hugsandi einstaklingar vita að þetta er borðliggjandi leið til að veiða kisur.
Þrátt fyrir þessar upplýsingar er ég ósátt, því þetta gerði málið illt verra. Nú ert þú nefnilega í lífshættu, elsku Branda og ekki bara þú heldur mamma þín og bróðir. Næst þegar þessi fiðurbóndi nær þér, með búri frá meindýraeyði, sem greinilega er að aðstoða hann við kattadrápin, þá mun hann drepa þig, þ.e. ef meindýraeyðirinn verður ekki búin að því á undan honum. Hann veit nefnilega hvernig ég berst fyrir þig og veit hvar þú átt heima.
Ég ákvað að fara aftur og ræða við konuna og manninn (var að vonast til þess að maðurinn væri heima). Ég vildi nefnilega fá betri skýringar á ónæðinu sem þú átt að hafa valdið, elsku kisan mín. Þegar ég spurði konuna hvers vegna hún kvartar yfir ónæði af þínum völdum, þá kannaðist hún ekkert við það ónæði og sagðist ekkert hafa kvartað yfir þér sérstaklega (önnur lygi frá meindýraeyðinum). Þú varst sem sagt, elsku Branda, ekki að ónáða neinn. Þú varst bara óheppin. Búrið var nefnilega ekki ætlað þér sérstaklega, burtséð frá því sem Þráinn meindýraeyðir segir mér. Þegar ég síðan spurði hvers vegna þau afhentu þig, þessum lygna meindýraeyði, þá yppti hún öxlum og sagðist ekki hafa tekið eftir fallegu ólinni þinni, með glitrandi steinunum, tveimur bjöllum og stóru tunnunni þinni. Þau skoða aldrei kisurnar sem þau veiða í búrin sagði hún orðrétt, beint framan í opið geðið á mér og föður mínum. Vá, hversu margar kisur hafa þau eiginlega fangað? Hvurs lags fólk er þetta og allt með aðstoð meindýraeyðis?
Hvernig á ég að geta trúað því að hún þóttist ekki sjá að þú væri heimilisköttur með þínar klingjandi bjöllur og glitrandi ól? Til að bæta gráu ofaná svart sagði hún að þú væri blíð og góð. Samt tóku þau þig til fanga og slepptu þér ekki heldur afhentu þig yfirvöldum sem skrökva upp á þig sögur. Ég get aldrei treyst yfirvöldum framar (alla vega ekki þessum) og því sem þeir segja, þegar ég stend þá að því að ljúga upp á þig.
Nú eru mér sett skilyrði, þú mátt ekki fara út, því að auðvitað ferð þú aftur á staðinn og ónáðar ólöglegu hænurnar og þá verður málið enn alvarlegra. Ég þekki þig vel, elsku kisa mín. Þú skoðar hænurnar aftur og þú verður veidd enn á ný, því það er búr þarna við hitaveitustokkinn, sérstaklega komið þarna fyrir, til að veiða kisur. Villikisur sem veiða fugla. Af hverju loka ekki yfirvöld ekki þessum fjandans hitaveitustokk á þessu svæði? Á meðan hann er opinn halda kisurnar sig á svæðinu. Annars er ég glöð að vita að villikisurnar eiga í einhvern hlýjan stað að sækja þegar kólnar í veðri.
Konan sagði mér, að þarna er búr til staðar, staðsett við hitaveitustokkin með lokkandi lykt og engu máli skiptir þótt þú sért með ól, allar kisur eru veiddar, bara fyrir það eitt að vera til. Með hænur á svæðinu er veiðiaðferðin borðliggjandi. Hænur sem agn svínvirka nefnilega á allar kisur.
Þú býrð rúma 300 metra frá þessu örlagaríka hænsnabýli. Við horfum niður hæðina og hænurnar vappa, gagga og góla og auðvita lokkar hreyfingin í þeim þig þangað. Enginn vafi er á því að þangað ferðu aftur, það er í þínu eðli. Þarna er svo spennandi svæði. Hænsi og fuglar og margt að skoða og þó svo að þú veiðir ekkert með allra bjöllurnar þínar hangandi utan á þér, þá er þetta samt ævintýraheimur.
Það sorglega við þetta allt saman er það að það skiptir engu máli þó að þú sért með ól, merkt nafni og heimilisfangi í tunnu og með bjöllur. Veiðiaðferðin sem notuð er til að lokka þig er eins ósanngjörn sem hún getur orðið. Hvaða kisa myndi ekki læðast að hænsnum sem ganga lausar? Þú áttir aldrei möguleika gegn þessu fólki. Þau vita það fullvel.
Af hverju tekur fólk merktar kisur? Ég skal segja þér það. Þú varst tekin af því að eigandi hænsnanna vill fjarlægja þig og allar kisur. Hann hefði hæglega geta sleppt þér, en kaus að gera það ekki. Af hverju ekki, hugsaðu málið! Þú með þína stóru glitrandi ól og klingjandi bjöllur.
Þú varst bara talin ein af villiköttunum og átti aldrei möguleika. Hænsnaeigandinn vill þig í burt svo styggð komi ekki að fuglunum. Þú ert dauðadæmd. Ég veit hvað þú gerir ef þú kemur heim aftur. Auðvitað ferðu beint niður brekkuna á ný, beint í búrið sem býður þarna. En í þetta sinn mun maðurinn drepa þig, því nú er hann verulega fúll yfir því að ég kvartaði. Ég nefnilega kærði þessar lokkandi veiðiaðferðir hans og kvartaði yfir því að starfsmaður meindýravarna geri engar athugasemdir við lausagöngu hænsnanna sem án efa eru orsakavaldur allra þeirra katta sem veiðast þarna. Ég get ekki annað en hugsað um alla þá saklausu ketti sem þau hafa fangað. Með hænur sem agn og meindýraeyði sem aðstoðarmann eiga þær enga von.
Villiköttur í mínum huga á alveg jafn mikinn tilverurétt og ólöglegar hænur.
Samkvæmt lögum um kattahald í Reykjavík má fanga kisur í eftirfarandi tilfellum: Sé köttur ómerktur, hvort sem er með hálsól eða örmerki. Kisan mín þú áttir að vera örmerkt. Ég stóð í þeirri trú. Svo varstu með ól, tunnu og tvær bjöllur vegna þess að nú er vor og ég vildi að það heyrðist í þér langar leiðir. Samt varstu tekin. Má þetta? Ég átta mig ekki á þessum lögum. Ég túlka þetta þannig að þú varst merkt þrátt fyrir að örmerkið vanti. Það var slys, sem ekkert er tekið tillit til. Hvar eru lögin sem bóndinn á að fylgja. Hvar er réttur okkar kattaeigenda? Af hverju gerir dýraspítalinn þessi mistök að gelda þig, sprauta þig, hreinsa þig en sleppa því að merkja þig? Það bara gleymdist. Tilviljanir og óheppni réðu ferðinni í þínu tilviki.
Svo varstu ekkert að ónáða, Branda mín, um það vitnar konan á bænum, sem ég talaði við.
Af hverju var þér þá ekki sleppt lausri um leið og kom í ljós að þú ert heimilisköttur? Hvað er þessi tómstunda hænsnabóndi að hugsa? Nú þarf ég þarf að svæfa þig til þess að ólögleg hænsni geti gengið laus. Gaggandi og galandi hænsni sem laða að kisur af svæðinu allt í kring. Hvað skyldu margar saklausar kisur hafi dáið af völdum þessa manns? Veiðiaðferðin er allavega pottþétt. Kisurnar eiga engan séns. Guð veit hvað gerist ef þú sést á svæðinu aftur.
Þarna verður búr áfram sem lokkar með góðri lykt. Þetta væri ekkert vandamál ef hænurnar væru ekki þarna eða ef Reykjavíkurborg lokaði fyrir inngöngu í hitaveitustokkinn sem liggur þarna um svæðið og varnar villiköttum aðgengi að svæðinu. Á meðan ekkert er gert þá verða allir heimiliskettir á svæðinu í hættu. Í þínu tilfelli er þetta eins ósanngjarnt og hægt er.
Hér fyrir neðan má sjá lögin um handsömun katta. Mig grunar að hænsnaeigandinn styðjist við b lið. En hver er orsakabreytan og hver er fylgibreytan. Eru kisurnar að koma vegna þess að þarna eru hænur sem ganga lausar eða hvað? Hvað segir heilbrigð skynsemi okkur?
Koma kisur í búrin ef hænurnar eru fjarlægðar? Ég þori að veðja upp á það að þá veiðir hann engan kött. Er hann að venja komu katta á svæðið með lokkandi hænum? Mér sýnist bóndinn vera orsakavaldurinn að þessu öllu saman og alveg sama hver niðurstaðan í þessu máli verður, við erum búin að tapa. Þú kisa mín ferð ekkert gegn eðli þínu, svo vel þekki ég þig. Það fyrsta sem þú gerir er að fara aftur á svæðið, nú þegar þú hefur fengið að sjá dýrðina ólöglegu. Fyrir það þarftu að gjalda með lífi þínu.
Ég vil bara fá þig heim, maðurinn sem kom með þig í Kattholt á að sækja þig þangað og sleppa þér aftur þar sem hann tók þig. Þá hleypur þú upp brekkuna, þessa 300 metra, heim.
Nei, sagði meindýraeyðirinn, köttinn sæki ég ekki. Þú þarft síðan að gjalda fyrir það að ég á ekki fyrir lausnargjaldinu.
Málið er afgreitt af okkar hálfu sagði meindýraeyðirinn þegar ég var að biðja hann um að hjálpa þér. Mig hryllir að hugsa til þess að það vinnur meindýraeyðir í Reykjavík sem hatar kisur…. í vitorði með hænsnabónda…. og stórhættulegu öllum kattavinum. Þannig kemur málið mér fyrir sjónir. Hann á enga miskunn til.
Næsta mál á dagskrá er að ræða við fjölmiðla og segja þeim söguna okkar.
Handsömun katta.
Heilbrigðisnefnd Reykjavíkurborgar fer með eftirlit með framkvæmd samþykktar þessarar. Starfsmenn umhverfissviðs Reykjavíkurborgar starfa í umboði nefndarinnar og er sem slíkum heimilt að fanga í búr ketti í eftirfarandi tilfellum:
a. Sé köttur ómerktur, hvort sem er með hálsól eða örmerki.
b. Sé ítrekað kvartað undan ágangi katta á tilteknu svæði.
c. Sé köttur innandyra hjá nágranna í leyfisleysi, á óheimilum stað sbr. 7. gr. eða án samþykkis í fjöleignarhúsi, sbr. 6. gr.
Ketti sem fangaðir eru skv. tölulið a. í 1. mgr. og ketti sem haldnir eru í fjöleignarhúsum án samþykkis meðeigenda, sbr. 6. gr., skal færa í sérstaka kattageymslu. Öðrum köttum skal sleppa lausum en eigendum eða umráðamönnum katta tilkynnt um handsömunina og ástæður hennar. Ítrekuð handsömun á köttum vegna ónæðis telst brot á 8. gr. samþykktarinnar og getur umhverfissvið bannað viðkomandi eiganda eða umráðamanni að halda kött í lögsagnarumdæmi Reykjavíkur.
Með vinsemd og virðingu,
Bryndís Stefánsdóttir.