Bóas tapaðist í Reykjavík, fannst á Akureyri.

21 mar, 2008

Sæl Sigríður,
 
Fyrr í vikunni hafði ég samband við þig því hann Bóas minn var týndur frá Kárastíg í miðbæ Reykjavíkur, ég hafði ekki séð hann frá því sunnudaginn 16.mars.

Í gærkvöldi (20.mars) fékk ég símtal. Ég hélt fyrst að það væri verið að gera at í mér, en fljótt varð mér þó ljóst að hann Bóas minn var fundinn, heill heilsu.


Ástæða þess að ég hélt að verið væri að gera at í mér er að símtalið kom alla leið frá Akureyri. Hann Bóas hafði farið inn í gám sem flytja átti búslóð frá Reykjavík til Akureyrar.


Eiginmaðurinn í fjölskyldunni fór fyrir tilviljun út að athuga með búslóðina og varð þá var við mjálm í kisa. Ég vil þakka þessari fjölskyldu innilega fyrir að hafa tekið kisann minn inn og haft samband við mig.

En nú voru góð ráð dýr, hvernig átti ég að koma honum Bóasi mínum aftur til Reykjavíkur, ég þekki engann á Akureyri hugsaði ég. En þá varð mér hugsað til hans Sigurðs Ara sem sér um vefinn fyrir Kynjaketti, hann hafði ég hitt á sýningunni nú fyrr í mars og vissi að hann byggi á Akureyri.


Ég hafði samband við hann og það var sko ekkert sjálfsagðara en að sækja hann Bóas minn. Svo hringdi hann Sigurður í mig og sagði mér að tengdaforeldrar hans væru á leiðinni til Reykjavíkur núna næsta laugardag og það væri minnsta málið að Bóas yrði hjá honum fram á laugardag og fengi svo far í bæinn með tengdaforeldrum hans.

Ég þarf varla að segja þér Sigga að ég er alveg í skýjunum núna. Kisinn minn, litla barnið mitt, er á leiðinni heim til mín. Ég fékk hann Bóas hjá þér í Kattholti í janúar 2007 og hann hefur verið augasteinninn minn frá fyrsta degi. Yndislegur kisi í alla staði.

Ég vil því þakka þér Sigga fyrir að birta tilkynninguna um týnda Bóas en ég vil líka nota tækifærið og þakka þér fyrir þennan frábæra kisa sem hefur veitt mér svo mikla gleði.

Sérstaklega vil ég þó þakka Sigurði Ara og fjölskyldu hans fyrir að hjálpa mér og Bóasi í neyð, það er frábært að geta leitað til svona mikilla kattavina sem þið augljóslega eru.  Þið eruð yndisleg og ég á ekki orð til að þakka ykkur fyrir hjálpina við að koma honum Bóasi heim aftur.
 
Sendi hér með myndir af Bóasi sem tekin var á sýningunni nú fyrr í mars.
 
Takk kærlega fyrir öll þín störf í þágu katta og Gleðilega Páska,
 
Kær kveðja,
 
Steinunn Anna
Kárastíg 3