Bjargað eftir viku uppi á þaki Smáralindar.

4 mar, 2009







 
Þeir Ólafur og Jón Þorbergur lögðu sjálfa sig í mikla hættu er þeir reyndu að ná litlum kettlingi af þaki Smáralindarinnar.



Smári, bara fjandi sprækur
þrátt fyrir allt.


Þeir Ólafur Jóhannesson og Jón Þorbergur Jakobsson eru sannkallaðar hetjur, að minnsta kosti í augum kettlingsins Smára sem fékk nafngjöfina eftir að hafa fest sig uppi á þaki verslunarmiðstöðvarinnar Smáralindar.


Kettlingurinn sást fyrst fyrir rúmri viku en það tók töluverðan tíma að ná honum af þaki Smáralindar þar sem hann var mjög hvekktur. Smári gistir nú í Kattholti á meðan eiganda hans er leitað.


Við vorum eiginlega búnir að ná honum í gær en hann hefur fundið fyrir einhverju óöryggi greyið því hann hljóp í burtu,“ segir Ólafur Jóhannesson, starfsmaður Smáralindarinnar sem stóð í ströngu við að ná litlum kettlingi ofan af þakinu.


Kettlingurinn sást fyrst fyrir rúmri viku ofan á þaki verslunarmiðstöðvarinnar en það voru glöggir vegfarendur sem komu auga á hann. Ekki er vitað hversu lengi hann hafði spígsporað uppi á þaki fyrir þann tíma en vegfarendurnir létu starfsfólk Smáralindarinnar vita og gekk það strax í málið.



Kaldur og svangur
Þegar tilkynningin barst starfsfólki Smáralindar fóru þeir Ólafur og Jón Þorbergur að litast um eftir kettlingnum en málið þótti fremur undarlegt. Þá sérstaklega í ljósi þess að þetta hefur aldrei komið fyrir áður enda er verslunarmiðstöðin vægast sagt stór og mikil og ekki auðvelt að komast upp á þak. Það má þó leiða líkum að því að kettlingurinn hafi villst upp á þak Smáralindarinnar í gegnum stórt og mikið hús sem nú er í byggingu við hlið hennar.


„Við vorum búnir að reyna að ná honum í heila viku en það hafði ekkert gengið því hann bara forðaðist okkur. Það var ekki fyrr en í dag sem okkur tókst að ná honum,“ segir Ólafur sem fékk kaldar kveðjur frá kettlingnum eftir að hafa gefið honum þó nokkuð mikið af harðfiski.



Beit bjargvættinn
„Við vorum búnir að gefa honum harðfisk og vorum eiginlega komnir með hann. Kisi var samt ekki alveg nógu sáttur og beit mig í höndina og stakk af, hljóp aftur á sama stað og hann hafði verið á áður,“ segir Ólafur sem þó þakkar fyrir það að kisi hafi náðst af þakinu að lokum.


Eins og gefur að skilja er þakið á Smáralindinni ekkert leiksvæði og í raun stórhættulegt að vera að flækjast þar eins og Ólafur og samstarfsmaður hans komust að.


„Við lögðum okkur nánast í hættu við að ná kattargreyinu því bæði er þakið erfitt yfirferðar og síðan er ekki auðvelt að komast upp á það.“



Smári í Kattholti
Farið var með kettlinginn í Kattholt í Reykjavík þegar honum var loksins bjargað af þaki Smáralindarinnar. Þar gistir hann nú, fær nóg að borða en bíður spenntur eftir því að eigandi hans sæki hann. Því miður var kettlingurinn ekki merktur og því engin leið fyrir starfsfólk Kattholts að koma honum til réttra eigenda. Starfsfólk Smáralindarinnar vonar því að umfjöllun um málið verði til þess að einhver kannist við hann. Hægt er að hafa samband við Kattholt í síma 567-2909 en það er til húsa í Stangarhyl 2.


En fyrst enginn vissi hvað litli kisinn hét ákváðu þeir Ólafur og Jón Þorbergur að kalla hann Smára – í höfuðið á Smáralind.


Greint frá í Dv  |  Myndir: DV- Heiða Helgadóttir