Bannað verði að gefa gæludýr

6 jún, 2006

Ég er félagi í Kattavinafélagi Íslands og hef fylgst með heimasíðunni ykkar í Kattholti og hef nýtt mér þjónustu ykkar þar sem ég hef komið með 2 kisur til ykkar sem voru ráfandi um heimilislausar hér í vesturbænum þar sem ég bý. 


Mér blöskrar ástandið í Kattholti núna, þ.e. hversu margar heimilislausar kisur eru hjá ykkur þessa stundina og lagði ég kr. 10.000 inn á reikninginn ykkar.  Ég veit það er ekki mikið en ég vona að það sé betra en ekkert og að eitthvað verði hægt að gera fyrir þann pening.


Mikið óskaplega sýnir fólk mikla grimmd, skilur eftir kettina í pappakassa fyrir utan Kattholt, hendir þeim inn um gluggann hjá ykkur eða hendir þeim út úr bíl!  Mikið verður maður sorgmæddur og reiður að lesa þetta.


Ég minnist þess að í apríl sl. var smá frétt í Fréttablaðinu um það að hvolpur hefði verið skilinn eftir á víðavangi.  Það komst í blöðin og mikið vonast ég til að ástandið verði þannig hér á landi að það komist í blöðin þegar fólk kemur svona illa fram við kisurnar sínar í stað þess að það sé nánast daglegur atburður.  Maður veltir því fyrir sér hvað þurfi að koma til til þess að fólk sýni köttum þá virðingu sem þeir eiga skilið.  T.d. hvort að það eigi að lögleiða það að bannað sé að gefa gæludýr eins og sum lönd hafa tekið upp.  Spurning er hvort það leysi einhvern vanda, það er náttúrulega alltaf hægt að komast fram hjá slíku á ýmsan hátt, en það er spurning ef að kisur kosta einhvern pening hvort að fólk fari að hugsa sig aðeins um áður en það fær sér kött.


Ég sjálf átti kött sem því miður dó í febrúar sl.  Hann var alveg hreint yndislegur á allan hátt (hann var mjög líkur kettinum Músarrindli, sbr. mynd af honum á Kattholtssíðunni) og var hann hluti af fjölskyldunni og var það því mikil sorg þegar hann dó, en við tókum þá erfiðu ákvörðun að láta svæfa hann þar sem hann var orðinn mikið sykursjúkur og veikur og það gekk mjög illa að koma jafnvægi á blóðsykurinn hans, þrátt fyrir að ég sprautaði hann með insúlini á 12 klst. fresti.  Það er svo erfitt að horfa upp á dýrið sitt svona lasið, en kisi hefði orðið 10 ára í sumar og reyni ég að hugga mig við að þó að það sé ekki hár aldur að þá hafi hann þó náð því að verða þetta gamall. 


Ég sakna hans alveg ógurlega og ég skil hreinlega ekki hvernig fólk getur komið svona illa fram við dýrin sín.


Jæja, ég ætla ekki að hafa þetta lengra í bili.  Hafið þið bestu þakkir fyrir ykkar frábæra en vanmetna starf.


Bestu kveðjur,
Elísabet.