Aprílgabb Moggans vakti athygli og gleði.

2 apr, 2010




 

„Fólk hafði gaman af þessu,“ sagði Sigríður Heiðberg, formaður Kattavinafélagsins, um baksíðufrétt Morgunblaðsins í dag um keppnina í kattasmöluninni sem kynnt var til sögunnar.


Hún segir fjölmarga hafa hringt í Kattholt í morgun til að kanna hvort þetta væri ekki örugglega gabbfrétt. „Ég harðneitaði því að sjálfsögðu.“


Ögmundur Jónasson og Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, þingmenn VG, brugðu á leik ásamt Sigríði við undirbúning fyrir kattasmölunina, en fræg eru orðin þau ummæli Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra að það að smala saman meirihluta á Alþingi væri eins og að smala köttum.


Vildu Ögmundur og Guðfríður Lilja sýna fram á að þetta væri vel hægt, með því að fara vel að köttunum! Hyggajst þingmenn VG a.m.k. safna liði og gerast félagar í Kattavinafélaginu. Er þingmönnunum og Sigríði þökkuð aðstoðin við „fréttina“.


Önnur einkennileg frétt var í Morgunblaðinu og á mbl.is í dag, um myndlistargjörning nemenda í Listaháskólanum.


Nakin kona í búri og á hlaupahjóli að auki, með jakkafataklædda menn á hælunum, var hreinn hugarburður blaðamanna í tilefni dagsins. Reyna eflaust margir að opna myndskeið sem á að vera tengt við fréttina.


Ennfremur var það aprílgabb hjá Heimdellingum með ókeypis ljósakortin en einhver forvitin og sólþyrst ungmenni munu hafa gripið í tómt í Valhöll í dag.


Mbl.is.