Komið þið öll sæl.

 

Það er kraftaverki líkast að fylgjast með hetjunum fjórum og
kisumömmunni henni Dísu.

 

Allir bræðurnir hafa fengið nafn og heita Bjartur,
Brandur, Friðbjörn (Bangsi) og Hnoðri. Þeir stækka óðum og eru allir farnir
að borða og meira að segja orðnir kassavanir.

 

Það er svo gaman að sjá svona litla hnoðra klifra upp með þvílíkum tilþrifum og nánast detta ofan í
sandkassann, taka sér stöðu og pissa og meira segja gera heiðarlegar
tilraunir til þess að moka yfir með misjöfnum árangri og svona í leiðinni
aðeins smakka á sandinum; þvílíkir snillingar.

 

Ég hef gefið þeim öllum ýmsar
tegundir af mat og það er alltaf jafn stórkostlegt að sjá hvað þeir eru
gráðugir og hvað þeim finnst maturinn góður.

 

Ég blanda nokkrum sinnum á dag
handa þeim þurrmjólk (SMA-þurrmjólkurduft fyrir ungbörn) sem ég hræri út í
vatni ásamt nokkrum þurrfóðurskúlum.

 

Þeir eru búnir að fá harðfisk, skinku,
svínakjöt, kjúkling og hafragraut. Harðfiskurinn sló öll met og það fór ekki
á milli mála að þarna voru kettir á ferðinni.

 

Dísa er orðin svo lystug að ég
hefði aldrei trúað því að svo lítill köttur gæti borðað svo mikið eins og
raun ber vitni, sem er mikið gleðiefni enda er ég að reyna að byggja hana
upp, enda var hún svo illa haldin, grindhoruð og vöðrýr þegar hún kom í
Kattholt vesalings dýrið og byrjuð að brenna vöðum til þess að eiga orku
fyrir kettlingana fjóra sem hún gekk með.

 

Ég tek heilshugar undir orð Sigríðar formanns: ég myndi vilja rassskella þá sem svelta ketti sína á
meðgöngu og dæmi mig bara hver sem vill, sá sem fer svona með dýrið sitt er
ekkert annað en dýraníðingur.


Bræðurnir stækka og þroskast með hverjum degi sem líður og eru miklir
orkuboltar og ótrúlega skemmtilegir, gáfaðir og með eindæmum fallegir. þeir
verða að fá góð heimili þessar elskur, enda eiga þeir það svo innilega
skilið.

 

Þeir eru hreint út sagt yndislegir alveg eins og mamman, sem hugsar
svo vel um börnin sín. Mamman hefur tekið miklum framförum frá því hún kom.


Einn daginn svona viku eftir að hún kom fór hún allt í einu að tala (mjálma)
og hún er mjög ræðin svona þegar þess gerist þörf en þó ekkert að óþörfu.


Við erum farnar að skilja hvor aðra nokkuð vel þótt við tölum ekki sama
tungumál. Já við Dísa erum mestu mátar og ætlum að eiga góða ævi saman.

 

Við förum einu sinni á dag í skoðunarferir um húsið og þá er mikið þefað en hún
er alltaf mjög róleg í tíðinni.

 

Í gær setti ég á hana kattarbeisli og fór
aðeins með hana út í sólina til þess að sýna henni nýju heimkynnin bæði
fyrir framan og aftan hús, ef svo ólíklega vildi til að hún myndi nú sleppa
út en það gerist alveg örugglega ekki, enda vel passað upp á hana.

 

Hún var ekkert voðalega spennt yfir útiverunni og fór bara fljótlega inn aftur og
beinustu leið niður í kjallara til að athuga með börnin sín (hugsið ykkur
hvað hún er góð, alltaf að huga að börnunum, gerir allt fyrir þau).

 

Ég leyfi henni alltaf að ráða hve lengi hún vill vera frá börnunum í einu og hún kýs
oftast að vera í svona hálftíma á dag.

 

Hún gefur öllum börnunum ennþá af spena en er voða ánægð að fá smá aðstoð og hvíld frá gjöfunum enda engin
smávegis vinna að vera með fjórbura.

 

Jæja, ég læt þetta duga í bila af fimm manna fjölskyldunni í þvottahúsinu;

þau biðja að sjálfsögðu að heilsa ykkur
öllum, læt nokkrar myndir af litlu prinsunum og Dísu fylgja með bréfinu.

Með bestu kveðjum,
Hrafnhildur Björt, Einir, Guðmundur Bjartur
og kisurnar: Ljúfur, Ljúfa, Bangsi, Draumur og Dísa