Alltaf ánægjulegt að fá fréttir af kisunum sem hér hafa dvalið.

21 nóv, 2008


Sæl Sigga og aðrir starfsmenn í Kattholti
 
Fyrst af öllu vil ég fá að þakka fyrir mig og þær kisur sem ég hef verið svo heppin að kynnast í Kattholti og jafnvel fengið að taka með mér heim.


Fyrst var það Skotta sem ég fékk haustið 2002 sem varð fyrir bíl í sumar og lifði það ekki af.


En ég var þó svo heppin að ég var látin vita af vegfarandi og gat því sótt hana og grafið. Síðasta ár hef ég verið svo lánsöm að fá Mola, Boriz, Loka og Brodda.


Því miður voru miklir erfiðleikar með Boriz og fór það svo að lokum að ég neyddist til að svæfa hann sem var mjög sorglegt.



Eftir eru þrír yndislegir högnar sem mér langar að segja ykkur smá frá. Moli er sá hjartahlýjasti kisi sem ég hef nokkurn tíman hitt. Hann var mjög veikur þegar ég tók hann að mér og stóð jafnvel til að fjarlægja úr honum annað augað en sem betur fer bjargaðist það að lokum þó hann hafi ekki fulla sjón á því.


Hann er reyndar með mjög lítið hjarta og hræðist auðveldlega og er hann mjög ánægður með að fá að vera inniköttur á friðsömu heimili. Hann hefur mikið móðureðli í sér sem lýsir sér bæði í að hann leyfir hinum strákunum að komast á spena hjá sér eins og sést á myndinni og siðar þá jafnframt til þegar þörf er á. Guli Loki er litli freki knúsarinn í fjölskyldunni.


Hann vill fá alla athyglina og hikar ekki við að láta heyra í sér ef maturinn er ekki nógu góður. Ef hann fær ekki að kúra í fanginu mínu þegar hann vill þá stekkur hann bara upp á axlirnar á mér og sest þar. Hann hefur mjög gaman af að glíma við Brodda litla því hann á mjög auðvelt með að vinna þá bardagana en er ekki mjög ánægður ef Moli snýr hann niður.


Spurning hvort það fari illa með sjálfsálitið hans. Broddi litli bröndótti er orkuboltinn í fjölskyldunni og heldur áfram að leika þó að allir aðrir séu búnir að fá nóg. Passa þarf mjög vel upp á hann ef vatn er einhversstaðar nálægt því hann dettur reglulega ofan í baðkarið, hvort sem er vatn í því eða sturtan í gangi, og hefur meira að segja dottið ofan í klósettið.



Þó að það sé oft líf og fjör á heimilinu þá er líka mjög gott að kúra saman og er alveg ótrúlegt að sjá hvað þeir hafa mikið yndi hver af öðrum og svo fæ ég stundum að bætast í hópinn.
 
Kær kveðja
 
Fanney og strákarnir