Það líður ekki sá dagur að einn eða fleiri kettir séu auglýstir týndir í þéttbýli eða dreifbýli.
Sennilega er vandamálið sýnilegra með aukinni notkun samfélagsmiðla, t.d. með fjölda kattasíðna á Facebook.
Ástæður þess að allir þessar kettir týnast geta verið margvíslegar, en við kattaeigendur ættum að staldra við og finna út hvort og þá hverju við gætum breytt til að koma í veg fyrir að svona margir kettir týnast að heiman.
Helstu ástæður þess að kettir hverfa eru:
- Nýr köttur á heimilinu. Það tekur tíma fyrir kött að aðlagast nýju fólki, heimkynnum og umhverfi. Halda skal nýjum ketti inni á heimilinu inni í lágmark 3 vikur. Sérstaklega skal passa dyr þegar gengið er um og að gluggar séu lítið opnir, þannig að þeir komist ekki út um þá.
Sama á við ef flutt er með kött/ketti á nýjan stað. - Eigendur fara að heiman snemma á morgnana, kötturinn kemst ekki inn allan daginn og hann fer á stjá í leit að hlýju og/eða mat og ratar ekki aftur heim og sest að til frambúðar að hjá fólki sem aumkar sig yfir hann.
- Eigandi fer í fríi og fær einhvern til að koma heim til að gefa kettinum, honum fer að leiðast og notar fyrsta tækifæri til að fara út að leita að eigendum sínum.
- Of margir kettir týnast þegar þeir fara í pössun á kunnugan stað og reyna að koma sér þaðan og leita að leiðinni heim. Það er mikil ábyrgð að taka að sér kött í pössun og nauðsynlegt að gæta þess sérlega vel að hann komist ekki út.
- Nýtt gæludýr til viðbótar á heimilið kostar vinnu og þolinmæði, ketti sem fyrir er á heimilinu getur fundist sér freklega misboðið og lætur sig stundum hverfa.
- Kettir þola illa óvæntan hávaða, þeim getur brugðið illa og hlaupa út í buskann og geta átt í miklum erfiðleikum með að finna aftur leiðina heim.
- Kettir lokast inni á ókunnugum stað. Mjög algengt er að kettir forvitnist inn um opnar dyr og svo er skyndilega lokað og þeir finna enga útgönguleið.
- Kettir taka sér stundum óvart far með bíl og hafna á stað langt fjarri kunnugu umhverfi aðstæðum og eiga enga möguleika á að rata til baka. Það hjálpar mjög ef fólk er vakandi fyrir því ef allt í einu birtist ókunnur köttur í nágrenninu, sem jafnvel mjálmar mikið og virðist óöruggur.
- Örmerki og skráning er lykilatriði að því að týndir kettir komist aftur til síns heima.
- Síðasta og klárlega ekki sísta ástæðan fyrir því að kettir fara á flakk er að ekki er búið að gelda fressketti og taka læður úr sambandi. Það er aldrei bent of oft á þá staðreynd, fyrir utan að það stemmir stigu við offjölgun katta.