Gamlársdagur og dagarnir í kringum hann, eru köttum og öðrum gæludýrum erfiðir. Margir kettir verða skelfingu lostnir yfir hljóðum, lykt, ljósi og leiftri sem fylgir flugeldum og skilja ekki hvað um er að vera.
Við mælum með að halda útiköttum innandyra á gamlársdag og á þrettándanum. Nauðsynlegt er að hlúa að heimiliskettinum, búa til skjól þar sem hann getur legið og kúrt sig t.d. í botn á skáp og setja þar þykkt teppi fyrir hann til að liggja á.
Þegar mikill gestagangur er eins og algengt er um hátíðisdaga, þarf að huga sérlega vel að dyrum þegar gengið er um. Einfaldast er að loka kisu af í sér herbergi ef mikill umgangur er. Þar inni er gott að hafa útvarp lágt stillt, loka kirfilega gluggum og draga gluggatjöld fyrir.
Feliway og Pet remedy geta reynst vel (fáanleg í verslunum með dýravörur og hjá dýralæknum). Þau róa taugar og veita köttum öryggistilfinningu. Til eru tvær gerðir, annars vegar er hægt að kaupa þar til gerða kúlu og efni sem sett er í samband við rafmagn og hins vegar úðabrúsa. Ágætt að byrja á að nota efnið nokkrum dögum fyrir áramót.
Minnum fólk á að í nágrenninu og víðsvegar um byggðir, eru kettir sem lifa á vergangi og eiga sér ekki nema tilfallandi skjól ásamt harðri lífsbaráttu og eru berskjaldaðir gagnvart vondum veðrum og utankomandi hávaða. Gaukum að þeim bita og útbúum þeim skjól.
Á síðunni Flugeldahljóð má finna ýmiss konar fróðleik og ráð. Einnig eru gagnlegar upplýsingar á heimasíðu Mast