Systurnar Seigla og Silfra eru kisur júlí mánaðar og mömmur ársins. Þær fundust í yfirgefinni íbúð en talið er að eigandi þeirra hafi keypt sér „one way ticket“ erlendis og skilið þær eftir. Með þeim voru fimm kettlingar í íbúðinni en talið er að kisurnar hafi verið einar í íbúðinni í allt að tíu daga. Læðurnar voru báðar mjólkandi og hjálpuðust að með kettlingana. Fuglshræ voru á gólfinu en læðurnar hafa veitt til matar fyrir sig og kettlingana. Ólýsanlega sorglegt hvernig sumir kattaeigendur koma fram við dýrin sín.
Eftir að fjölskyldan kom í Kattholt tóku systurnar að sér fjölda móðurlausra kettlinga. Núna eru kettlingarnir allir komnir með heimili og systurnir því tilbúnar á vit nýrra ævintýra. Þær eru mjög samrýmdar og óska eftir að fara saman á heimili. Best væri að engin önnur dýr væri á heimilinu. Báðar eru þær mjög kelnar, skapgóðar og mannblendnar. Þær eru í kringum tveggja ára aldurinn. Mælum með að taka að sér tvær kisur saman. Þær hafa mikinn félagsskap af hvor annarri meðan eigendur eru að heiman.