Vetrarríki

2 des, 2018

Nú ríkir vetur um land allt og Kattavinafélagið vill beina þeim eindregnu tilmælum til dýravina, hvar sem er á landinu, að þeir hlúi að kisum á vergangi.

Kisur á vergangi, hvort sem það eru villikisur, týndar eða yfirgefnar heimiliskisur, eiga erfitt núna. Flestar eiga sér eingöngu tilfallandi skjól, sem verða fljótt blaut og köld í misjöfnum veðrum.
Það er mikill misskilningur að kettir þoli vel kulda. Í frosti og snjó verður þeim er kalt og við bætist hungur og margar eru auk þess veikar, hræddar og stundum meiddar, t.d. oftar en ekki með kalin eyru og loppur.
Veitum þeim skjól þar sem því verður við komið og gefum mat og vatn. Og ef mögulegt er, reynum að ná óskilakisum og hjálpa þeim til frekari aðhlynningar.
Hafið samband við Kattholt. Þar er hægt góð ráð og fá lánuð fellibúr. Þannig komast oft týndar kisur til síns heima og enn aðrar fá ný heimili.

Látum okkur varða dýr í neyð. Hjálpum þeim að þrauka af veturinn. Slíkt munar flest okkar litlu, en skiptir sköpum fyrir þau.
Munið! Ef okkur er kalt úti er kisum líka kalt.