Það er mikilvægt að hleypa ekki kettlingum of snemma út. Hætta er á að þeir týnist eða slasist utandyra.

Kettlingar þurfa að hafa náð minnst 6 mánaða aldri og vera geltir, örmerktir, ormahreinsaðir og bólusettir áður en þeir fara út en ráðlagt er að halda þeim inni sem lengst svo þeir fari sér ekki að voða. Kettlingar sem eru spenntir að fara út er hægt að fara með í sérstöku kattarbeisli og taum.

Þegar fullorðinn köttur kemur á nýtt heimili eða eftir flutninga þá er mikilvægt að halda honum innandyra í að minnsta kosti 3 vikur, þó svo hann eigi að vera útiköttur. Hann gæti týnst ef hann fer of snemma út. Útikettir eiga að vera örmerktir, geltir, ormahreinsaðir og bólusettir.

Það þarf að gæta að öllum gluggum og hurðum, því kettir komast út um mjög þröngar rifur.