Sæl elsku Sigríður mín.
Ég hef lengi ætlað að skrifa þér og leyfa þér að fylgjast með elsku kisunum mínum 🙂
Þær eru orðnar 3 ára gamlar og hafa það sko gott í kotinu okkar. Rómeó hefur dafnað mjög vel og er sko feitur og pattaralegur (hann hafði fengið kvef af mömmu sinni og var óvíst með hvort hann myndi lifa) og er algjör kúrukisi, hann elskar að liggja í fanginu hjá mér og malar sig rænulausan.
Ísold er nett og yndislega skemmtilegur karakter en er aðeins lokaðri en hún er enn að koma til, undanfarið er hún líka farin að vilja kúra aðeins en áður vildi hún bara kúra þegar við vorum komin upp í rúm, núna er hún aðeins farin að leyfa manni að knúsa hana. Hún hefur virkilega gaman að spjalla og kurrar skemmtilega þegar hún sefur. Þær eru alveg yndislegar kisur og elska ég þær alveg útaf lífinu.
Þeim er ýmislegt til listanna lagt, bæði kunna þau að sækja hluti eins og hundar. Eftirlætis dótið hans Rómeó er gamall gardínugormur og hjá Ísold er það rakbursti. Þessu hendum við um alla íbúð og þau hlaupa á eftir og koma með tilbaka 🙂 Rómeó á það líka til þegar hann er rosalega ánægður að hlaupa undir stól og dansa með afturfótunum. Þau eru svo góðir vinir og passa hvort annað mjög vel, ég gæti ekki án þeirra verið.
Ég les reglulega sorglegu stöðuna sem er í Kattholti og ég fæ tár í augun, þessi dýr eiga svo miklu betra skilið og vona ég að þau eignist sem flest góð heimili. Til stendur hjá dóttur minni að safna á tombólu fyrir Kattholt og mun ég aðstoða hana við það.
Takk fyrir allt sem þú gerir og við fylgjumst vel með.
Kv.
Svava, Rómeó og Ísold