Lilju eru færðar þakkir frá Kattholti fyrir umhyggju hennar gagnvart dýrinu .

25 sep, 2008

Sæl.



Ég vil byrja á því að hrósa þér fyrir starf unnið af mikill alúð í þágu allra þeirra katta sem hjálp þína hafa fengið.
 
Ég upplifði það áðan að sjá keyrt á fallegan kött við ráðhúsið á Akureyri. Um er að ræða mjög loðinn kött fremur stóran, með fallegan svartan og brúnan feld. Mig brá svo við þessa sjón að ég athuga ekki hvort að um væri að ræða læðu eða högna. Mér finnst líklegt að hann hafi verið hreinræktaður skógarköttur eða allavega blanda af skógarketti. Ég dreif mig út úr bílnum og stóð hjá kisunni þangað til lögreglan mætti á staðinn. Greyið hreyfði sig í smá stund en dó stuttu síðar. Kötturinn var ekki merktur né með hálsól og því vita eigendur kattarins ekki um afdrif hans, þess vegna skrifa ég þetta bréf.
 
Það tók mikið á mig að horfa upp á kisuna deyja. Ég er sjálf mikill kattarvinur og á eina gullfallega persalæðu og tvær venjulegar kisur. Oft hef ég vorkennt þeim að vera innikisur en þegar ég les sumt af því sem ég hef séð á síðunni ykkar og séð keyrt yfir kött hugsa ég að þær séu heppnar að vera í vernduðu umhverfi. Enda fá þær nóg af ást og dekri.


Mér skilst að nokkuð sé um heimilislausa ketti hér á Akureyri en enginn starfsemi er rekin hér fyrir norðan þar sem hægt er að taka á móti týndum köttum. Ég vil hvetja fólk til að taka dýrin úr sambandi til að koma í veg fyrir óhóflega kattarfjölgun. Hvort sem um er að ræða læður eða högna. Nóg er af fallegum köttum sem kannski eru ekki lengur sætir kettlingar en sem búa yfir miklum karakter og krydda svo sannarlega uppá lífið.


Mínir kettir hafa gefið mér mikið og því vona ég að öll dýr fái þá umhyggju sem þau eiga skilið.
 
með bestu kveðju, Lilja