Læðan Emilía á heimleið – á viðskiptafarrými

3 des, 2005

Læðan Emilía heldur heim á leið í dag – með stæl. Á viðskiptafarrými í þotu Continental Airlines.


Emilía villtist frá heimili sínu í Wisconsin í Bandaríkjunum fyrir tveim mánuðum og sigldi alla leið yfir Atlantshafið til Frakklands í vörugámi.


Heimferðin virðist ætla að verða öllu þægilegri. Emilía steig um borð í þotu Continental á Charles de Gaulle-flugvelli við París í dag.


„Ég geri ekki ráð fyrir að hún þiggi kampavín, en hún verður áreiðanlega ánægð með að geta hvílt sig,“ sagði Philippe Fleury, talsmaður flugfélagsins, sem fylgdi Emilíu á flugvöllinn.


Continental bauðst til að fljúga Emilíu heim eftir að sagan um ferðalag hennar til Evrópu barst um heiminn og hún hafði verið í mánuð í sóttkví.


„Þetta var svo stórkostleg saga að okkur langaði til að bæta við hana,“ sagði Fleury. Fullt gjald fyrir farið væri undir venjulegum kringumstæðum um sex þúsund dollarar, eða sem svarar um 380.000 krónur. Flugfélagið lagði Emilíu einnig til fylgdarmann.


Læðan hvarf frá heimili sínu í Appleton í Wisconsin síðla í september. Svo virðist sem hún hafi þvælst inn í dreifingarmiðstöð pappírsfyrirtækis skammt þar frá og skriðið inn í vörugám.


Gámurinn var fluttur með bíl til Chicago, þaðan með skipi til Belgíu, en Emilía fannst 24. október í Nancy í Frakklandi, daginn sem hún varð eins árs. Hún var þyrst, en sprelllifandi.


Hún var með ól og merki og þeir sem fundu hana hringdu í dýralækninn hennar í Wisconsin sem aftur hafði samband við eigendur hennar.


Hún er væntanleg til Newark-flugvallar í New Jersey síðdegis í dag og heldur áfram með tengiflugi til Chicago, en þaðan verður henni svo ekið heim til Appleton, að því er Fleury greindi frá.


Greint á Mbl.is


Mynd: AP