Fyrir ca. 7 árum útvegaði hún Sigga mér heimili. Ég var búinn að vera í Kattholti í 9 mánuði og kannski farið að leiðast biðin.
En heppinn var ég, í heimsókn til mín kom stúlka í lopapeysu sem mér leist afar vel á. Hún kom svo aftur nokkrum dögum seinna og án þess að ég segði mjá eða já, var ég drifin í búr og í bíl (sem ég þooooli ekki) og ég keyrður á nýja adressu við Sjávarsíðuna.
Þar hef ég búið við gott atlæti. ég fæ aðallega kex sem er fúlt, en fóstra mín er örlát og gefur mér oft fisk eða kjöt ósaltað og jafnvel örlítið blóðugt, það er best!. Besta kjöt sem ég hef fengið er léttsoðið hreindýrakjöt, en það er sparimatur. Ef matseðillinn er klénn hef ég þann munað að geta stokkið út í fjöru eða út í móa og náð í lítinn unga eða mús.
Þetta borða ég upp til agna undir rúmi fóstru minnar sem er afar stolt af duglegum kisa sínum. Auk þess að lifa við gott eldhús hef ég MITT EIGIÐ HERBERGI með útsýni út í fjöru og móa og kassa til að liggja í. Það sem helst er mér til armæðu eru lausir hundar – ég hata lausa hunda!.
Annars hef ég það ágætt, ég er ekki viss um að ég sakni ykkar mikið en það hefði verið gaman að geta þakkað henni Siggu fyrir því ef ekki væri fyrir Kattholt, væri ég ekki til frásagnar.
En gaman að segja frá því – að um miðjan mánuðinn ætlar fóstra mín að fá fyrir mig hótelgistingu 😉 í Kattholti og ég er mjög spenntur að koma.
Sjáumst og takk fyrir lífsbjörgina
zorró