Kveðja frá Franz Jósef og Sigurði.

4 nóv, 2009

Kæra Sigríður.


 


Árið 1998 var mér mjög erfitt tilfinningalega.  Ég var orðinn einn og leið ekki vel. Þá ráðlagði dóttir mín , sem er mikil kattakona, að ég skyldi fá mér kött.


 


Mér þótti það fráleitt, þar eð ég taldi mig vera hundamann.  Ég fór samt með henni í Kattholt og þar var hann.  Stór högni, grábröndóttur á bak og skott og fram á enni, annars mjallhvítur í andliti, brjósti og kvið og fætur. 


 


Hann sat þarna einn í búri, virðulegur, eins og vitur miðalda keisari.  Við horfumst í augu, nokkra stund og teningunum var kastað og ekki aftur snúið. 


 


Og þú fólst mér að ala önn fyrir honum, eða hann sættist á að ala önn fyrir mér.  Þú sagðir mér að hann væri ca. 4 ára.  Þetta þýðir að hann er orðinn 15 ára. 


 


Hann hefir alltaf verið mjög heilsugóður og er það í dag og hefir aldrei þurft að leita læknis.  Hann er inni köttur, nema að hann fer út á svalir í góðu veðri. 


 


Einnig förum við oft í sumarhús fjölskyldunnar vestur í Dölum og þar fær hann valsa út og inn, eins og hann vill. 


 


Þrátt fyrir þetta frelsi í sveitinni, virðist það ekkert há honum heima við.  Ég hefi verið viss um það frá upphafi sambúðar okkar, að hann hefir átt illa æfi á sínum uppvaxtarárum, jafnvel verið barinn, en það er nú allt löngu horfið. 


 


Hann hefir einn skemmtilegan kost, hann kjaftar mikið og vekur mig á morgnana kl. 6 og við eigum uppbyggilegar samræður á hans tungumáli áður en ég held til vinnu minnar. 


 


En þá leggst hann ofan á sængina mína og sefur út.  Hann á það til að fyrtast ef ég gleymi að hægræða sænginni fyrir hann áður en ég fer. 


 


Hann gegnir nafninu Franz,  en vegna hins keisaralega virðuleika heitir hann fullu nafni Franz Jósef prinz zu Hohenzollern- Habsburg und zu Bourbon- Parma. 


 


Að lokum vil ég þakka þér fyrir að hafa gert okkur Franz Jósef kleift að kynnast og verða vinir og leyfa mér sjá fyrir honum.  Hann hefir svo sannarlega gefið mér allt sitt og gott betur.  Kveðja Franz Jósef og Sigurður.


 


Kæri Sigurður. Ég vil þakka fyrir að senda mér þennan fallega póst.


Það vekur gleði og örfun til góðra verka að vera til staðar.


Þú sendir mér kannski mynd af honum Franz Jósef.


Kær kveðja Sigga.