Kveðja frá eigendum Núma

23 maí, 2014

Fyrsta vikan
„Þetta er hann Númi sem við
ættleiddum í Kattholti fyrir viku. Hann hafði fundist á vergangi á
Seltjarnarnesi einhverjum vikum áður og gott fólk kom honum til bjargar. Númi
var hvekktur og hræddur til að byrja með en samt í ótrúlega stuttan tíma og á
degi tvö heimtaði hann að sofa á milli og er óðum að gera þetta heimili að sínu
konungsríki“.
 
Einn mánuður liðinn
„Nú er Númi búinn að vera í einn mánuð hjá okkur. Þegar ég sá fyrstu
myndirnar af honum sem voru birtar eftir að hann kom í Kattholt fann ég bara
innra með mér að hann átti að koma til okkar. Við sóttum um og fengum að
ættleiða hann og hann fór svo með okkur heim eftir að hafa fengið rakstur
(feldurinn hans var allur í hnútum) o.fl. Í fyrstu var hann svolítið hræddur en
vildi samt strax sofa á milli okkar (sem hann fékk að sjálfsögðu að gera). Hann
svaf og svaf í nærri tvær vikur, hefur greinilega verið alveg uppgefin á
verganginum. Hann fór bara út úr rúmi til að borða og í sandinn og svo bara
beint upp að sofa aftur. Smátt og smátt fór hann að vaka meira og leika sér og
komið hefur í ljós að hann hefur heilmikinn karakter að bera. Hann spjallar
mikið, malar hátt og mikið og maður þarf ekki að tala lengi við hann áður en
hann er byrjaður að mala og þæfa með loppunum sínum og feldurinn hans er að
þéttast og hárið að lengjast og hann heldur sér hreinum og fínum. Nú held ég
bara að hann sé glaðasti, glaðasti, glaðasti köttur í heimi
😉 og við höfum það rosalega gott saman, ég, Gústi og Númi.“