Það verður að fara varlega þegar velja þarf kettlingum eða eldri kisum ný heimili. Óvenjumikið hefur verið um það undanfarið að kettlingar eru að finnast ómerktir á vergangi.
Kattavinafélagið vill brýna fyrir fólki að láta ekki kisur í hendurnar á fólki sem það ekki þekkir. Vanda þarf val á nýjum eigendum og brýna fyrir fólki ábyrgðina sem því fylgir að taka að sér gæludýr.
Einnig hafa verið mörg tilfelli þar sem fólk hefur látið frá sér ungar sem eldri, örmerktar kisur án þess að breyta eigandaskráningu og þeir eru til sem muna ekki hverjum þeir gáfu kisuna! Slíkt er mikið ábyrgðarleysi og vanvirðing við lifandi dýr.
Gleymum því aldrei að kettir eru lifandi verur, hvorki leikföng né skiptivara.
Bætum hag katta, sýnum ábyrgð, látum taka læður úr sambandi og gelda fress. Að merkja og skrá ketti er mjög nauðsynlegt, það auðveldar margt þegar kisur týnast eða finnast.
Gleymum aldrei: Það er skuldbinding til margra ára að taka að sér kisu!