Nú þegar vetrarkuldar herja á, viljum við minna á þann óteljandi fjölda katta sem eru á vergangi í og við þéttbýli og í dreifbýli. Villiketti er víða að finna og þó einkum í útjöðrum byggða t.d. á fyrirtækjasvæðum og nálægt sjó s.s. við hafnarsvæði. Þeir eiga ekki sjö dagana sæla, oftast kaldir og svangir og jafnvel veikir. Sama má segja um heimilisketti sem týnst hafa að heiman eða verið hent út og yfirgefnir af eigendum. Þeir eiga líka um sárt að binda, eru ráðvilltir, kaldir og svangir.
Við skorum á dýravini að vera vakandi fyrir köttum sem eiga bágt. Fæstum okkar munar um að gauka að þeim matarbita og gott er að búa þeim skjól, sé þess kostur. Best er að reyna koma kisum á vergangi til hjálpar með því að láta kanna hvort þær séu merktar t.d. í Kattholti (höfuðborgarsvæði og nágrenni) eða á dýralæknastofum. Starfsmenn sveitarfélaga eiga að bregðast við ef til þeirra er leitað með að ná kisum í fellibúr. Þannig hefur margur týndur heimiliskötturinn komist aftur til síns heima.
Aldrei er of oft brýnt fyrir kattaeigendum að sýna þá ábyrgð að láta gelda fressketti og taka læður úr sambandi. Offjölgun katta kemur okkur öllum við!
Höfum augun opin, það er mögulega kisa/kisur í neyð í okkar nærumhverfi!