Júpiter og Shiolín senda bestu kveðju í Kattholt.

4 júl, 2008









 
 
 
Júpíter í vasknum:


 


Ég ættleiddi Júpíter úr Kattholti sumarið 2002 þegar hann var kettlingur. Við áttum fyrst heima á Breiðabólsstöðum á Álftanesi þar sem hann fór fljótlega að hafa áhuga á baðherbergisvöskum og þótti gott að lepja úr krananum. Það þýðir ekkert að gefa honum vatn í skál. Júpíter vill fá vatnið sitt ískalt og ferskt! Eftir að við fluttum til Hafnarfjarðar fór að bera meira á þessari áráttu hjá honum og þar sem vaskurinn í baðherberginu er stór og rúmgóður, hoppar hann upp í hann og bíður eftir að einhver komi til að skrúfa frá krananum. Ef enginn kemur, leggur hann sig og sofnar eða hefur það huggulegt, enda er vaskurinn eins og lítið kattabaðker.


 


Shiolin í körfunni:


 


Shiolin var ræktaður handa mér í París og er hálfur persi og hálfur British Shorthair. Hann heitir eftir hinu heilaga fjalli Mount Shiolin í Kína sem allir Kung Fu-meistarar og margir andlegir vitringar heita á. Hann er mjög skapstór, eflaust ofdekraður og virkileg “prímadonna”. Ef hann fær ekki matinn sinn strax rekur hann upp hljóð sem minnir á spangól í úlfi! Þarna er hann bálvondur í körfunni sinni af því hann fékk ekki meiri harðfisk. Hann á það til að vekja fólk um miðjar nætur ef hann langar í eitthvað úr ísskápnum, enda ekta franskur matgæðingur.


 


Í París var hann vanur að liggja á gluggasyllunni, sem snéri út í húsagarðinn, og veiða leðurblökur, enda eru þær víst herramannsmatur – fyrir ketti. Ég held að hann sakni alltaf leðurblakanna og það er spurning að finna franskt kattanammi handa honum með leðurblökubragði næst þegar við bregðum okkur til Parísar.


 


Þarna er Shiolin nýkominn úr einangrun í Hrísey. Þegar ég flutti til Íslands lét ég flytja Shiolin til mín og var það heilmikil reisa. Það var farið með hann í tvígang á flugvöllinn í París áður en hægt var að skrá hann inn í flugvélina. Þegar hann lenti í Keflavík, missti hann af vélinni til Akureyrar og þurfti því að vera yfir nótt hjá bandarískum hermanni.


 


Hann var sóttur um morguninn og farið með hann til Akureyrar, en þá missti hann af ferjunni til Hríseyjar, svo að hann gisti hjá bónda nokkrum. Þegar hann komst loksins til Hríseyjar í tilskilda einangrun gerði hann sér dælt við starfsfólkið og skaut upp kryppunni – til að fá meiri mat en nokkur annar í Hríseyjarvistuninni. Ég efast ekki um að það hafi tekist hjá honum!


 


Oddný Sen