Flestir kettir elska að leika sér með
bönd og spotta, slíkt getur skaðað munn og háls að ekki sé talað um ef
spotti af einhverju tagi kemst í maga og þarma. Það getur kostað
þjáningar kattarins og að auki sáraukafulla og kostnaðarsama aðgerð.
Varist að súkkulaði liggi á glámbekk þar sem kötturinn getur náð í, hann getur
orðið mjög veikur af því að sleikja eða éta þótt ekki sé nema smáögn.
Gefið köttum ekki feitan og tormeltan jólamat, hann veldur meltingartruflunum og vanlíðan.
Hnetur og álíka geta verið köttum hættulegar ef þeir ná þeim í munninn.
Jólastjörnur eru fallegar og tilheyra hátíðinni, en þær eru eitur fyrir ketti og
þeir geta orðið mjög veikir ef þeir sleikja eða éta plöntuna. Sömuleiðis þarf að hafa gætur á að kettir nagi ekki annars konar inniplöntur. Endilega hafið kattagras tiltækt, sérstaklega fyrir inniketti.
Þegar mikill gestagangur er eins og algengt er um hátíðirnar þarf að huga sérlega vel að dyrum þegar gengið er um. Einfaldast er að loka kisu af í sér herbergi ef mikill umgangur er. Eins er aldrei of oft brýnt fyrir fólki að huga að opnanlegum fögum í gluggum og gæta að kisa komist ekki út á svalir.
Logandi kerti eru dýrum skeinuhætt, þar sem þau átta sig illa á hættunni. Hafið
lifandi ljós ávallt staðsett þannig að kisa komist ekki nálægt því.