Jóla- og nýársráð

20 des, 2014

Jól

Flestir kettir elska að leika sér með
bönd og spotta, slíkt getur skaðað munn og háls að ekki sé talað um ef
spotti af einhverju tagi kemst í maga og þarma. Það getur kostað
þjáningar kattarins og að auki sáraukafulla og kostnaðarsama aðgerð.

Varist
að súkkulaði liggi á glámbekk þar sem kötturinn getur náð í, hann getur
orðið mjög veikur af því að sleikja eða éta þótt ekki sé nema smáögn.

Gefið köttum ekki feitan og tormeltan jólamat, hann veldur meltingartruflunum og vanlíðan.

Hnetur og álíka geta verið köttum hættulegar ef þeir ná þeim í munninn.

Jólastjörnur
eru fallegar og tilheyra hátíðinni, en þær eru eitur fyrir ketti og
þeir geta orðið mjög veikir ef þeir sleikja eða éta plöntuna. Sömuleiðis þarf að hafa gætur á að kettir nagi ekki annars konar inniplöntur. Endilega hafið kattagras tiltækt, sérstaklega fyrir inniketti.

Þegar mikill gestagangur er eins og algengt er um hátíðirnar þarf að huga sérlega vel að dyrum þegar gengið er um. Einfaldast er að loka kisu af í sér herbergi ef mikill umgangur er. Eins er aldrei of oft brýnt fyrir fólki að huga að opnanlegum fögum í gluggum og gæta að kisa komist ekki út á svalir.

Logandi
kerti eru dýrum skeinuhætt, þar sem þau átta sig illa á hættunni. Hafið
lifandi ljós ávallt staðsett þannig að kisa komist ekki nálægt því.

 

 

Áramót

Gamlársdagur
og dagarnir þar um kring eru köttum erfiðir, þeir verða skelfingu
lostnir yfir hávaðanum sem fylgir flugeldum og skilja ekki hvað gengur
á. Nauðsynlegt er að hlúa að heimiliskettinum, búa til skjól þar
sem hann getur legið og kúrt sig t.d. í botn á skáp og setja þar þykkt
teppi fyrir hann til að liggja á. Gott að hafa útvarp lágt stillt, loka kirfilega gluggum og draga gluggatjöld fyrir.

Feliway
og Pet remedy geta reynst vel (fáanleg í verslunum með dýravörur). Þau
róa taugar og veita köttum öryggis tilfinningu. Til eru tvær gerðir,
annars vegar er hægt að kaupa þar til gerða kúlu sem sett er í samband
við rafmagn og hins vegar má fá úðabrúsa. Ágætt að byrja á að nota þetta
nokkrum dögum fyrir áramót.

Sumir kettir verða svo yfir sig
skelkaðir að ákjósanlegt er að fá róandi hjá dýralækni fyrir þá. Til
þess þá þarf að hafa samband við dýralækni í tíma.

 

 

Munum að lifandi dýr er EKKI gjafavara!

Minnum
fólk á að í nágrenninu geta verið kettir sem lifa á vergangi og eiga
erfitt líf. Gaukum að þeim bita og útbúum skjól fyrir þá í vondum
veðrum.