Viktor var tekinn af heimili sínu 16. mars 2005 af Lögreglunni í Borgarnesi. Hann var búinn að vera í 6 vikur, trúlega án matar mjög horaður við komuna í Kattholt.


Hann kemur síðan í Kattholt 17 mars 2005


Farið var með dýrið til dýralæknis sem fannst að dýrið ætti að fá að lifa. Haft var samband við Kattholt og var tekið á móti honum með gleði. Átakanlegt var að horfa upp á þennan gamla kött svo illa á sig kominn og umkomulausan. Hann dvaldi í athvarfinu í 3 mánuði og var honum komið til heilsu. Ógleymanlegur kisustrákur.


Hann fór á nýtt heimili frá Kattholti 13.júní 2005.


Á heimasíðu Dyravernd.is ber að líta frétt um málið og er hún eftirfarandi:


 


Maður dæmdur í 40.000 króna sekt – eða 4 daga fangelsi.


Skildi kisuna eftir vikum saman án nokkurs eftirlits eða umönnunar.


Sýslumaðurinn í Borgarnesi höfðaði mál á hendur manni með ákæru 2. maí 2006 „fyrir brot á dýraverndarlögum, með því að hafa um miðjan febrúar 2005, á þáverandi heimili sínu –


“skilið eftir vikum saman án nokkurs eftirlits eða umönnunar kött er hann hafði í vörslum sínum og eigi tryggt viðunandi vistarverur, fullnægjandi fóður, drykk og umhirðu kattarins og hafa á engan hátt fylgst með heilsu kattarins né gert nokkrar ráðstafanir til að koma í veg fyrir vanlíðan hans”


En lögreglan fann köttinn í íbúðinni þann 16. mars 2005, og var hann þá beinhoraður og í slæmu ástandi.


Mörg mál um vanrækslu dýra berast á hverju ári til yfirvalda en afar fátítt er að sýnd sé sú röggsemi að láta málið fara alla leið í réttarkerfinu, eins og gert er með þessum dómi. Dýraverndarsamband Íslands fagnar þessum dómi sérstaklega, sem góðu fordæmi í slíkum málum.


Dómurinn sem kveðin var upp er í heild sinni hér að neðan:


D Ó M U R


Héraðsdóms Vesturlands 15. júní 2006 í máli nr. S-142/2006:


 Ákæruvaldið


(Hjördís Stefánsdóttir fulltrúi)


gegn


Guðmundi Frey Ævarssyni


 Mál þetta, sem dómtekið var 7. júní sl., höfðaði sýslumaðurinn í Borgarnesi með ákæru 2. maí 2006 á hendur ákærða, Guðmundi Frey Ævarssyni, kt. [—], til heimilis að Skólavörðustíg 40, Reykjavík;


„fyrir brot á dýraverndarlögum, með því að hafa um miðjan febrúar 2005, á þáverandi heimili sínu að Skólaflöt 12, Hvanneyri, skilið eftir vikum saman án nokkurs eftirlits eða umönnunar kött er hann hafði í vörslum sínum og eigi tryggt viðunandi vistarverur, fullnægjandi fóður, drykk og umhirðu kattarins og hafa á engan hátt fylgst með heilsu kattarins né gert nokkrar ráðstafanir til að koma í veg fyrir vanlíðan hans, en lögreglan fann köttinn í íbúðinni þann 16. mars 2005, og var hann þá beinhoraður og í slæmu ástandi.


Telst þetta varða við 2. gr. og 1. og 3. mgr. 3. gr., sbr. 19. gr. laga um dýravernd nr. 15/1994.


Þess er krafist, að ákærði verði dæmdur til refsingar.“


I.
Fyrirkall í máli þessu var gefið út 18. maí 2006 og birt fyrir ákærða 31. sama mánaðar. Við þingfestingu málsins 7. júní sl. sótti ákærði ekki þing og var málið þá dómtekið að kröfu sækjanda með vísan til 1. mgr. 126. gr. laga nr. 19/1991.


Með vísan til áðurgreindrar lagagreinar þykir mega jafna útivist ákærða til játningar hans enda fer sú niðurstaða ekki í bága við gögn málsins. Brot ákærða telst því nægjanlega sannað og varðar það við tilgreind lagaákvæði í ákæruskjali.


II.
Samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins á ákærði nokkurn sakaferil að baki. Við úrlausn málsins verður sérstaklega til þess að líta að 8. apríl 2005 var ákærði dæmdur í 45 daga fangelsi fyrir brot gegn 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga. Þá var hann 2. janúar sl. dæmdur í þriggja mánaða fangelsi fyrir samskonar brot, auk brots gegn 1. sbr. 2. mgr. 45. gr. umferðarlaga. Þar sem brot það sem ákærði hefur nú verið sakfelldur fyrir var framið fyrir uppkvaðningu tilvitnaðra dóma skal við ákvörðun refsingar gæta að fyrirmælum 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.


Refsing ákærða þykir samkvæmt áðursögðu og að broti hans virtu hæfilega ákveðin 40.000 króna sekt til ríkissjóðs og komi fjögurra daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún eigi greidd innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dómsins.


Engan sakarkostnað leiddi af rannsókn og rekstri málsins.


Dóm þennan kveður upp Kristinn Halldórsson, settur héraðsdómari.


 D Ó M S O R Ð:


Ákærði, Guðmundur Freyr Ævarsson, greiði 40.000 króna sekt til ríkissjóðs og komi fjögurra daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dómsins.


Kristinn Halldórsson.


************Haft var samband við Sigríði, formanns Kattavinafélagsins og spurð um dómsmálið og svarið einfalt:


Þetta hefur fordæmisgildi fyrir kisurnar. Og brýtur blað um réttastöðu dýranna.