Ef kettlingurinn sem þú tekur er þegar sjúkur, er óvíst hvort hann nái fullri heilsu á ný og meðferð getur verið kostnaðarsöm. Heilbrigður kettlingur er með skýr og tær augu, hreinar nasir og mjúkan og hreinan feld. Ef kisi litli er síhnerrandi, með augnleka eða það rennur úr nösum hans er líklegt að hann sé með öndunarfærasýkingu. Ef þriðja augnlokið (himna niðri í augnkróknum nær trýninu) er sýnileg eða feldurinn er mattur og þurr eru það einnig einkenni á veikindum. Skítug eyru geta verið einkenni á sýkingu með eyrnamaur eða bakteríum og horaðir kettlingar með mikla vömb eru líklegast með mikla ormasýkingu. Ef þú ert í einhverjum vafa, fáðu þá að láta dýralækni skoða kettlinginn áður en þú ákveður að taka hann.

Hanna M Árnadóttir dýralæknir
Dýralæknastofan í Garðabæ