Hvað eru Íslendingar að hugsa.

18 jún, 2010

Slasa eða drepa sauðfé og stinga svo af




Lömbin eru í mestri hættu meðan þau eru lítil.


Lömbin eru í mestri hættu meðan þau eru lítil.


Ekið var á ellefu lömb og ær í umdæmi lögreglunnar á Vestfjörðum í síðustu viku. Þrjú lömb drápust í einni ákeyrslunni. Í öllum tilvikum stungu ökumennirnir af frá slysstað og létu skepnurnar liggja eftir.


„Þetta gerist á hverju einasta ári,“ segir Önundur Jónsson, yfirlögregluþjónn á Vestfjörðum. „Ég set fram þá spurningu hvers vegna íslenskir ökumenn séu svona óheiðarlegir.“


Önundur segir að mest sé um ákeyrslur á sauðfé á vorin, þegar nýbúið sé að sleppa lambfénu í haga og áður en það fer að sækja lengra til fjalla. Ekið sé á nokkrar kindur í viku hverri á þessum tíma.


„Ef tekin eru hundrað svona óhöpp, þá eru kannski tveir til þrír sem láta vita að þeir hafi keyrt á lambið og slasað það eða drepið. Hinir stinga af.


Við sjáum að stundum hafa þær skepnur, sem ekið hefur verið á og síðan skildar eftir, kvalist, því þær hafa sparkað allt í kringum sig áður en þær hafa drepist. Stundum eru dýrin stórslösuð en lifandi þegar komið er að þeim. Ég spyr íslenska ökumenn hvað sé á seyði í höfðinu á þeim þegar þeir gera svona lagað? Ég spyr hverjir það séu sem ganga svona um landið okkar, náttúruna og blessaðar skepnurnar? Ég skil þetta ekki og á engin svör. Það er mjög ill og ljót meðferð að skilja skepnurnar eftir svona.“- jss


Vísir.is.