Hvað er ábyrgt dýrahald?

5 feb, 2014

Við komumst e.t.v ekki öll á nákvæmlega
sömu niðurstöðu, en þó hafa talsmenn Kattholts, Kattarvinafélags Íslands og
Kynjakatta tekið höndum saman um að halda úti áróðri sem vonast er til að
stuðli að ábyrgara kattarhaldi í Reykjavík og nágrenni.


1. Ógelt dýr eiga ekki að vera í
lausagöngu. Mikið er um að ógeld dýr lendi á flakk í leit að hinni einu sönnu
ást. Það verður til þess að sérstaklega fresskettir hverfa að heiman og þvælast
langar vegalengdir milli bæjarhluta til að finna læðu. Einnig fylgir ógeltum
fressköttum mikill sóðaskapur því þeir merkja sér sitt svæði í von um að það
laði að kvendýr og haldi öðrum kynsveltum fressköttum frá þeirra eign.
Þegar ógeltir fresskettir leggjast upp á heimili þar sem t.d. eru læður í kring
þá merkja þeir með sterku amoníak hlandgusum allt sem þeir komast í tæri við.
Slíkt fer fyrir brjóstið á fólki og þá sérstaklega þeim sem hafa ekki háan
þolinmæðisþröskuld fyrir köttum almennt né þeim óþef sem fylgir merkingum
þeirra.
Ógelt fress lendir einnig í meiri hrakningum þegar hann þarf að berjast fyrir
umráðasvæði sínu. Þetta eru oft óhugnanleg átök þar sem tvö ógelt fress berjast
upp á líf og dauða þar til annar hopar.

2. Ógeldar læður breima 1 til 3 í
mánuði. Það er hægt að halda aftur af breimi með getnaðarvarnarpillu en hún er
engan veginn örugg þegar læða er kominn á ákveðin tíma í tíðarhringnum. Læður
hverfa að heiman eins og fressin. Þær geta jafnvel lent í sjálfheldu ef ógeltur
villtur fress þefar þær uppi því þeir eru að upplagi grimmir, hræddir og
óöruggir. Eðlishvöt þeirra snýst um að halda lífi í villti náttúru.
Læður þarf að gelda nema þær séu til ræktunar. Ég er ekki mótfallin því að
læður af húskattarkyni megi parast. Hugsi eigandi sér aftur að koma með got þá
þarf hann að axla ábyrgð og fylgja reglum um ábyrgt kattarhald. Hann þarf að
bólusetja kettlingana, örmerkja þá og finna þeim góð heimili. Það þýðir að ekki
er hægt að setja kettlinga á nýtt heimili fyrr en milli 3 og 4 mán. (10 til 12 vikna).

Þrátt fyrir að enginn lög séu um slíkt,
(sbr hreinræktuð got sem þurfa að framfylgja ákveðnum ræktunarlögum) þá
flokkast þetta undir ábyrgt kattarhald.

Bera má við vanrækslu í tilfellum þar
sem kettlingar eru gefnir og geta borið smit, hafa aldrei farið undir
eftirlitsskoðun og hafa varla náð fullum þroska þegar þeir eru teknir frá
móður. Ef húskattareigendum væri einnig skylt að framfylgja ræktunarreglum og
sett væri lög um gefins kettlinga þá er nokkuð víst að mörgum
„slysagotunum“ myndi fækka.

Húskattareigendur
eiga líka að sýna ábyrgð í verki !

3. Merking/Örmerking á að vera
skylda allra kattareigenda ekki síður en hundaeigenda. Í Kattholti og öðrum
athvörfum hrannast upp dýr sem hafa lent á vergangi, þau verið yfirgefin af
eigendum eða fæðst í villtri náttúru við hörð skilyrði. Í fyrsta lagi er það
dýraníð að henda heimilisketti út á gaddinn. Keyra hann út í sveit og skilja
eftir eða „koma honum fyrir kattarnef” með einhverjum óhugnanlegum hætti. Mörg
slík dæmi eru til og hefur m.a. Hveragerðisbær sem dæmi, tekið á því málefni þar
sem heimilislausir villtir kettir voru til trafala. Á Sorpu má gjarnan finna
læður með tvö got sem leitað hafa skjóls í gámum eða hreysum í kringum
strandlengjuna. Slíkt er til skammar af hálfu eiganda.

 

Dýrahald
er ekki skemmtun án ábyrgðar frekar en barnauppeldi !

Með þessum pistli vil ég höfða til dýraeigenda og þá sérstaklega kattareigenda
í Reykjavík og nágrenni. Ég vil leggja hart að kattareigendum, sem eiga ógeld
dýr í lausagöngu að taka það skref að láta gelda dýrið til að forðast alla þá
ókosti sem fylgja því að ógelt dýr gangi laust. Áður en dýr er tekið í fóstur
er vert að hugsa málið ítrekað og fjölskyldan sé samábyrg fyrir velferð
dýrsins. Aukakostnaður fylgir því að eiga dýr og sé fólk ekki framlögufært um
þann helsta grunnkostnað sem fylgir dýrahaldi er ekki tímabært að ættleiða dýr.

 

Húskattargot eru bæði falleg og
yndisleg og dásamleg reynsla að ala upp litla kettlinga. Ég er því ekki að
hallmæla læðueigendum sem hafa átt eitt og eitt got, ég er ekki heldur að
hallmæla þeim sem hafa alið upp got sín af ást og umhyggju og komið
kettlingunum sínum í góðar og ábyrgar hendur.


Þessi pistill er ætlaður til að vekja
fólk til umhugsunar og vekja umtal um virðingu fyrir dýrum og dýrahaldi !!


Þakka ykkur fyrir lesturinn og stuðlum að ábyrgu dýrahaldi í
Reykjavík og nágrenni.