Hugleiðingar

6 ágú, 2006


Kæru dýravinir.


Ég ætla að deila með ykkur nokkrum hugrenningum mínum í sambandi við slæma meðferð á dýrunum okkar.


Í Borgarnesi féll dómur í máli þar sem kisa hafði verið lokuð inni matarlaus í margar vikur og annar dómur í Hafnarfirði, þar sem að 4 kettir voru lokaðir inni á baðherbergi, matarlausir.


Kattholt tók við kisunum og kom þeim öllum til heilsu nema einum kettlingi, sem ekki lifði þrekraunina af. Persónulega er ég þakklát fyrir það að eigendur skyldu dæmdir til refsingar, enda hafa þessi mál fordæmisgildi.


En hvað með allar kisurnar sem komið er með í Kattholt og aldrei eru sóttar?  Myndin sýnir hvítan 3 mánaða kisustrák í Kattholti sem fannst á vergangi í Grafarvogi, skítugur og þreyttur.  Hann er ekki búinn að ná sér.  Hér er gróflega brotið á dýrunum okkar. Ég bið ykkur um að fara inn á Kattholt.is.


Að fólk skuli ekki vitja  dýranna sinna er óþolandi og við því verður að bregðast á einhvern hátt.  Það hefur lengi verið skoðun mín að menn ættu að þurfa að sækja um leyfi til að fá að eiga kisu.


Ástandið í Kattholti um þessar mundir er þyngra en tárum tekur.


Kær kveðja
Sigríður Heiðberg  formaður.